Helgi Áss Íslandsmeistari í skák

Guðmundur Kjartansson og Helgi Áss Grétarsson.
Guðmundur Kjartansson og Helgi Áss Grétarsson. Ljósmynd/Aðsend

Stórmeistarinn Helgi Áss Grétarsson tryggði sér í kvöld Íslandsmeistaratitilinn í skák í annað sinn. 

Helgi tryggði sér titilinn með því að gera jafntefli við Guðmund Kjartansson í tíundu og næst síðustu umferð. 

Það dugði því helsti andstæðingur hans Vignir Vatnar Stefánsson komst lítt áleiðis gegn Hannesi Hlífari Stefánssyni og jafntefli þar einnig niðurstaðan. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Skáksambandi Íslands. 

Tryggði sér sæti í landsliði Íslands

Eins og fyrr segir er um að ræða annan Íslandsmeistaratitil Helga en sá fyrri vannst á Hlíðarenda árið 2018. 

Sigur Helga á mótinu verður að teljast nokkuð óvæntur. Hann var aðeins fimmti af tólf í stigaröð keppenda og er ekki atvinnumaður í skák.

Með sigrinum tryggir hann sér sæti í landsliði Íslands á næsta Ólympíuskámóti sem fram fer í Búdapest í september.

Lokaumferðin fer fram á morgun og hefst kl. 13. Þá mætast Helgi og Vignir Vatnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert