Íslandsvinurinn lét starfsfólk United heyra það

Sir Jim Ratcliffe var ekki sáttur þegar hann heimsótti æfingasvæði …
Sir Jim Ratcliffe var ekki sáttur þegar hann heimsótti æfingasvæði United. AFP/Valery Hache

Íslandsvinurinn Sir Jim Ratcliffe var harðorður í tölvupósti sem hann sendi öllu starfsfólki Manchester United, en Ratcliffe stýrir nú öllu því sem viðkemur knattspyrnu hjá enska félaginu.

The Athletic greinir frá í dag að Ratcliffe hafi verið misboðið yfir hve óhreint Carrington-æfingasvæði félagsins hafi verið þegar hann heimsótti það í fyrsta skipti á dögunum. Notaði hann m.a. orðið hneisa í tölvupóstinum.

Þá skrifaði hann að búningsherbergi U18 og U21 liða félagsins væru allt of óhrein og slíkt myndi aldrei líðast hjá INEOS, fyrirtæki hans. Óhreinindi sem þessi hefðu slæm áhrif á ímynd félagsins á allan hátt.

Miðillin greinir frá að fyrsta verk Ratcliffes hjá United hafi verið að auka staðla, aga og menningu félagsins frá toppi til táar.

Þá greinir The Athletic einnig frá að skiptar skoðanir hafi verið um tölvupóst Ratcliffes á meðal starfsmanna félagsins. Einhverjum hafi þótt hann móðgandi á meðan aðrir voru sammála og talið hann löngu tímabæran.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert