Haaland eldri blandar sér í málið

Roy Keane gagnrýnir Erling Haaland reglulega.
Roy Keane gagnrýnir Erling Haaland reglulega. AFP/Darren Staples

Fyrrverandi knattspyrnumaðurinn Roy Keane hefur verið duglegur að gagnrýna norska framherjann Erling Haaland undanfarnar vikur en Keane er sjónvarpsmaður Sky í dag og Haaland framherji Manchester City.

Haaland var spurður út í gagnrýnina hjá Keane eftir sigurinn á Wolves á sunnudag og svaraði einfaldlega „mér er alveg sama um þennan mann.“ Keane hefur áður tekist á við Alfie Haaland, föður Erlings.

Keane braut afar illa á Haaland eldri árið 2001 er Keane lék með Manchester United og Haaland með City. Spilaði Haaland lítið eftir tæklinguna og viðurkenndi Keane seinna meir að hann hafi viljandi meitt þann norska.

Norski blaðamaðurinn Jan Aage Fjørtoft tjáði sig um málið á X og skrifaði: „Roy Keane, 52 ára, er loksins búinn að finna nýjan óvin eftir að hann hætti. Hinn 23 ára Erling Haaland.“

Haaland eldri svaraði færslunni með broskalli sem var skellihlæjandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert