Gylfi er ótrúlegur fagmaður

Valsmenn fagna Patrick Pedersen og Gylfa Þór Sigurðssyni eftir fyrsta …
Valsmenn fagna Patrick Pedersen og Gylfa Þór Sigurðssyni eftir fyrsta mark þeirra í kvöld. Eggert Jóhannesson

„Þetta var kærkominn sigur og við þurftum virkilega á þessu að halda,“ sagði Arnar Grétarsson, þjálfari Valsmanna, eftir að hans menn héldu út manni færri nær allan síðari hálfleikinn og unnu Breiðablik 3:2 á Kópavogsvelli í Bestu deild karla í fótbolta í kvöld.

Adam Ægir Pálsson fékk rauða spjaldið á 49. mínútu og í kjölfarið sýndi Erlendur Eiríksson Arnari sama spjald fyrir mótmæli.

„Við erum búnir að vera í smá krumma, þrátt fyrir að spila oft á tíðum mjög vel höfum við ekki nýtt það. Í kvöld fengum við góð færi til að gera út um leikinn þegar staðan var 3:2. Við nýttum þau ekki og það hefði getað kostað okkur stig. Ég hugsaði það einmitt þegar Tryggvi nýtti ekki dauðafærið rétt fyrir leikslok, nú myndi þetta koma í bakið á okkur,“ sagði Arnar við mbl.is eftir leikinn.

Þeim mun sætara að landa þessu

„Svona hefur þetta verið hjá okkur, við spiluðum hrikalega flottan leik gegn Stjörnunni manni færri, áttum að fá út úr honum. Hér í kvöld fengum við rautt spjald fyrir litlar sakir, að mínu mati, og auðvitað er það erfitt. Við vorum að spila á einum erfiðasta útivelli landsins, gegn góðu liði, og vorum orðnir manni færri í byrjun síðari hálfleiks.

Það var blóðugt, og þess vegna var þeim mun sætara að landa þessu. Við vitum að það eru gæði í liðinu þó við höfum verið aðeins að ströggla. Menn lögðu sig virkilega mikið fram, vildu þennan sigur, og þá uppskera menn,“ sagði Arnar.

Er þetta ykkar besti leikur til þessa á tímabilinu?

„Við vorum með flotta frammistöðu gegn FH í bikarnum, flotta frammistöðu gegn ÍA í fyrstu umferðinni, líka á móti Stjörnunni. En munurinn er sá að í kvöld vorum við með forystu þegar við misstum mann út af, og það er allt öðruvísi.

Svo er það þannig að við erum með svolítið góðan leikmann í okkar liði og hann er alltaf að verða betri og betri. Gylfi, Aron (Jóhannsson) og Kiddi (Kristinn Freyr Sigurðsson) hafa ekkert æft í vikunni og hafa verið að ströggla með meiðsli. Kannski er það allt í lagi ef hann spilar svona í öllum leikum.

Gylfi er bara svo ótrúlegur fagmaður og hugsar svo vel um sig. Það er líka gaman fyrir hina strákana að upplifa það. Hann er bara flottur, vinnusamur og duglegur með lappirnar á jörðinni, þannig að það er allt jákvætt,“ sagði Arnar.

Kærkomið að landa sigri

Leikurinn í kvöld gat verið vendipunktur fyrir Valsmenn sem höfðu aðeins unnið einn af fyrstu fjórum leikjum sínum í deildinni og voru í níunda sæti fyrir umferðina.

„Þetta var enn mikilvægara fyrir okkur en Blikana í kvöld. Þeir hefðu getað komst upp að hlið Víkings og FH á toppnum en fyrir okkur var undir að geta komist nær efstu liðunum. En við höfðum ákveðið að nálgast þetta samt á þann veg að horfa bara á einn leik í einu - við höfum sýnt flotta frammistöðu í mörgum leikjum en úrslitin hafa ekki dottið með okkur. Við þurftum að nýta betur okkar færi, og það var því virkilega kærkomið að landa þessum sigri, þrátt fyrir þessa erfiðleika,“ sagði Arnar Grétarsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert