Bjarni: Of snemmt að ræða lagasetningu

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra telur of snemmt að tala um að setja lög á verkfall starfsmanna Isavia. Það sé aftur á móti áhyggjuefni að Keflavíkurflugvöllur sé ítrekað skotspónn verkfallsaðgerða. 

Sigurður Kári Kristjánsson, stjórnarformaður flugfélagsins Play, lýsti yfir áhyggjum sínum í Morgunblaðinu í dag vegna fyrirhugaðra verkfallsaðgerða félagsmanna Sameykis og Félagi flugmálastarfsmanna ríkisins, sem hefjast að óbreyttu á fimmtudaginn.

Sagði Sigurður aðgerðirnar skólabókardæmi um misbeitingu á verkfallsréttinum og sagði brýnt að stjórnvöld endurskoði vinnumarkaðslöggjöfina og grípi inn í verði aðgerðunum ekki aflýst. 

Ekki hægt að útiloka lagasetningu

Í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is segir Bjarni það sannarlega áhyggjuefni að flugvöllurinn, lífæð landsins, verði ítrekað skotspónn aðgerða í vinnudeilu.

„Þegar spurt er um lagasetningu tel ég að of snemmt sé að segja til um það. Við verðum að treysta á að aðilar nái saman þar til annað kemur í ljós. Og ætlumst til þess.

En lagasetningu er eðli málsins samkvæmt aldrei hægt að útiloka, ekki síst þegar aðgerðir varða grundvallar innviði landsins.“

Aðgerðirnar hefjast að öllu óbreyttu á fimmtudaginn.
Aðgerðirnar hefjast að öllu óbreyttu á fimmtudaginn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Samningar hafi falið í sér loforð 

Segir Bjarni það hafa verið tímamót þegar stöðugleikasamningar til fjögurra ára náðust á almennum vinnumarkaði.

Almenni markaðurinn verði að leiða launaþróun í landinu og því sé grundvallaratriði að opinberi markaðurinn fari ekki fram úr þeim kjörum sem samið hafi verið um þar.

Með stuðningi ríkis og sveitarfélaga við kjarasamninga SA og ASÍ fyrr á árinu hafi verið gefin fyrirheit um tilteknar aðgerðir. En um leið hafi í stuðningi við samningana falist loforð um að ekki yrði gengið lengra í samningum við aðra.

Fréttin hefur verið uppfærð 20:19

Áður sagði að Bjarni teldi of snemmt að endurskoða vinnumarkaðslöggjöf en rétt er að hann telji of snemmt að tala um að setja lög á á verkfallið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert