„Hættið þessu fokking rugli“

Arnar Grétarsson fékk rauða spjaldið á Kópavogsvelli í kvöld.
Arnar Grétarsson fékk rauða spjaldið á Kópavogsvelli í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Arnar Grétarsson, þjálfari Vals, var ósáttur við rauðu spjöldin sem fóru á loft á Kópavogsvelli í kvöld þegar hans menn sigruðu Breiðablik 3:2 í Bestu deild karla í fótbolta.

Adam Ægir Pálsson fékk rauða spjaldið á 49. mínútu en þá upphófust mikil læti á hliðarlínunni þegar Blikar vildu fá gult spjald á hann fyrir að renna bolta inn á völlinn um leið og þeir tóku innkast með öðrum bolta. Adam var þá þegar búinn að fá gult spjald í leiknum. Arnar fékk sjálfur rauða spjaldið í kjölfarið.

Arnar sagði við mbl.is að Adam hefði ekki fengið seinna gula spjaldið fyrir þetta.

„Nei, hann fékk ekki spjaldið fyrir að sparka boltanum inn á völlinn. Það sem gerðist var að tveir þjálfarar Blika ruku að fjórða dómaranum, Gunnari, sem má ekki, og heimtuðu gult spjald. Þá kallaði Adam á þá: „Hættið þessu fokking rugli,“ eða eitthvað svoleiðis, og hann fékk gula spjaldið fyrir það,“ sagði Arnar.

„Mér finnst þetta glórulaust. Hvar var dómarinn þegar þetta gerðist, hver er hans tilfinning fyrir leiknum? Svo kem ég og segi: „Hvaða grín er þetta, eruð þið að henda manninum af velli fyrir orðaskipti við þjálfarana?"

Ég sagði ekkert alvarlegra en það, kallaði engan ljótum nöfnum eða neitt slíkt, en það var mikið undir og við vorum að missa mann af velli í stöðunni 2:1. Fyrir þetta fékk ég rauða spjaldið.

Þarna tók fjórði dómari risastóra ákvörðun sem mér finnst einfaldlega ekki rétt, því miður. Við höfum fengið of mikið af svona ákvörðunum gegn okkur en vonum bara að þetta eigi eftir að snúast við og jafnast út,“ sagði Arnar Grétarsson, sem verður fyrir vikið í leikbanni þegar Valur tekur á móti KA í sjöttu umferðinni á laugardaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert