Sigríður Hrund dregur forsetaframboð til baka

Sigríður Hrund Pétursdóttir tilkynnti forsetaframboð í 50 ára afmæli sínu.
Sigríður Hrund Pétursdóttir tilkynnti forsetaframboð í 50 ára afmæli sínu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigríður Hrund Pétursdóttir sem hafði gefið það út að hún ætlaði í forsetaframboð hefur dregið framboð sitt til baka. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Sigríði sem send var á fjölmiðla. 

Í henni segir Sigríður að ekki hafi tekist að ná undirskriftum þeirra 1.500 manns sem til þurfti fyrir framboðið. 

Þakklætis og stuðningskveðjur 

„Mig langar að þakka meðmælendum mínum fyrir traustið, hvatninguna og tækifærið sem þau veittu mér. Enn fremur langar mig að taka fram að á ferðum mínum um landið hefur verið vel á móti mér tekið í hvívetna og ég verið aufúsugestur hvar sem mig hefur borið að garði. Það segir margt um okkar einstöku þjóð,“ segir Sigríður í tilkynningunni. 

„Meðframbjóðendum öllum sendi ég hvatningar-, þakklætis- og stuðningskveðjur á sinni vegferð. Það er einstakt að búa í landi sem leyfir virkt lýðræði og tjáningarfrelsi. Að geta staðið upp og stigið fram eru mannréttindi sem við eigum að vernda með því að iðka – átakalaust.

Samgleðjumst

Fram undan eru áhugaverðar vikur þar sem þjóðin fær að kynnast fjölbreyttum frambjóðendum ítarlega. Það er einlæg ósk mín að við samgleðjumst og tökum fagnandi á móti hugrökku fólki með mildi og styrk að leiðarljósi.“

„Njótum dýrmætra daga,“ segir í tilkynningu frá Sigríði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert