Kippur í skilum fólks á fálkaorðum

Undanfarna mánuði hafa skil á fálkaorðunni verið tíðari en áður.
Undanfarna mánuði hafa skil á fálkaorðunni verið tíðari en áður. Samsett mynd

Kippur hefur orðið í skilum fálkaorðunnar undanfarna mánuði. Að sögn Sifjar Gunnarsdóttur forsetaritara ber að skila fálkaorðunni samkvæmt reglum en áberandi hefur verið síðustu mánuði hve mörgum orðum hefur verið skilað. 

Að sögn hennar eru orður, sem hefur verið skilað, sendar aftur í umferð að undangenginni pússningu frá gullsmið. „Orðan gengur ekki í erfðir – henni ber að skila við andlát orðuþega,“ segir Sif.

Fólk að velta fyrir sér orðunum 

Í febrúar var rituð umfjöllun í Morgunblaðið undir yfirskriftinni Heiður sem ekki er til sölu.

Þar segir frá því að stórriddarakross fálkaorðunnar hafi verið til sölu á netinu og að ráða mátti af uppboði að boðnar hefðu verið 2650 evrur í orðuna eða því sem nemur um 400 þúsund krónum.

Sif segir að greinin hafi verið vakning fyrir marga afkomendur orðuhafa og undanfarna mánuði hefur orðum verið skilað umtalsvert tíðar en verið hefur. 

„Þá var fólk greinilega búið að vera að velta því fyrir sér hvað það ætti að gera við orður skyldmenna,“ segir Sif. 

Sif Gunnarsdóttir er forsetaritari.
Sif Gunnarsdóttir er forsetaritari. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Leyndist í einhverjum kössum 

Einn þeirra sem skilaði orðu á dögunum var Björn Þór Sigbjörnsson, útvarpsmaður á Rás 1. Hafði hann í sínum fórum riddarakross og stórriddarakross sem veittir voru langafa hans Steindóri Steindórssyni frá Hlöðum, náttúrufræðingi, grasafræðingi, kennara og skólameistara Menntaskólans á Akureyri.

Björn segir að orðurnar hafi endað í hans fórum eftir skiptingu dánarbúa. 

„Þetta leyndist í einhverjum kössum sem einhverra hluta vegna enduðu hjá mér. Ég þekkti lögin og vissi að það ætti skila þessu,“ segir Björn. Orðunum skilaði hann til Boga Ágústssonar, fréttamanns sem á sæti í orðunefnd. 

Hann segir að honum hafi aldrei dottið í hug að selja orðurnar. Orðurnar fékk Steindór árið 1952 frá Ásgeiri Ásgeirssyni og 1970 frá Kristjáni Eldjárn. 

„Það stóð alltaf til að skila þessu en svo kom ég því ekki í verk fyrr en núna,“ segir Björn. 

Björn Þór Sigbjörnsson skilaði orðunni til Boga Ágústssonar í liðinni …
Björn Þór Sigbjörnsson skilaði orðunni til Boga Ágústssonar í liðinni viku. Bogi situr í orðunefnd. Ljósmynd/Þórunn Elísabet Bogadóttir

Létu smíða orður í fyrra 

Þessi árin veitir forseti 26-28 orður árlega. Annars vegar 1. janúar og hins vegar 17. júní. Á árum áður eru dæmi um að mun fleiri orður hafi verið veittar á hverju ári.

Sif segir að fálkaorðuveitingar séu ekki sjálfbærar þannig að þær orður sem er skilað standi undir orðuveitingum árlega. 

„Við létum smíða orður í fyrra og þá voru allnokkur ár síðan það hafði verið gert,“ segir Sif.

Skilaði orðu sem hann ætlaði að selja

Fálkaorðan hefur fimm stig. Æðsta stig hennar er stórkrossinn.
Fálkaorðan hefur fimm stig. Æðsta stig hennar er stórkrossinn.

Að sögn Sifjar gerist það af og til að orður sjáist til sölu. Í þeim tilvikum reynir hún að setja sig í samband við viðkomandi seljanda til að fá hann ofan af því að selja og benda honum á reglurnar. 

„En við höfum engin úrræði til að ganga á eftir fólki þó þessar reglur séu til staðar. Stundum hefur það þó gerst að fólk skili orðunum. Til að mynda gerðist það núna eftir þessa grein sem birtist í Morgunblaðinu, að hér hafði samband maður sem ætlaði að selja orðuna en ákvað að skila henni,“ segir Sif.  

Fimm sitja í orðunefnd. Sif er orðuritari en Kristín Ingólfsdóttir, fyrrverandi háskólarektor, er  formaður nefndarinnar. Auk hennar eru Bogi Ágústsson fréttamaður, Drífa Hjartardóttir fv. alþingismaður, Sigurbjörn Árni Arngrímsson skólameistari og Sigríður Snævarr, fv. sendiherra, í nefndinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert