Páll verður ekki sveitarstjóri

Páll Vilhjálmsson að kjósa í gær.
Páll Vilhjálmsson að kjósa í gær. mbl.is/Guðlaugur Albertsson

„Heldur betur, við erum algjörlega í skýjunum og mjög stolt af niðurstöðunni. Umboðið er gott svo við erum kampakát,“ segir Páll Vilhjálmsson í samtali við mbl.is en listi hans, N-listi Nýrrar sýnar, hlaut flest at­kvæði í kosn­ing­um til sveit­ar­stjórn­ar sam­einaðs sveit­ar­fé­lags Tálkna­fjarð­ar­hrepps og Vest­ur­byggðar í nótt.

Ný sýn hlaut 377 at­kvæði og fær því fjóra menn kjörna í sveit­ar­stjórn­ina.

Býður sig ekki fram 

Spurður að því hvort hann verði sveitarstjóri nýs sveitarfélags svarar hann því til að svo verði ekki.

„Það er búið að ákveða að ég verði það ekki. Við förum í það núna að leita að bæjarstjóra, hvort sem við gerum það með leit eða auglýsingu.“ 

En skyldi hann þá ekki gefa kost á sér í starfið?

„Við teljum að það sé sterkara fyrir okkur á svæðinu að hér sé sveitarstjóri sem starfar frá stjórnsýslunni, að við séum sterkari þannig,“ segir hann.

Nýtt nafn á sveitarfélagið væntanlegt

Óskað var í febrúar eftir tillögum frá íbúum um nafn á nýtt sameinað sveit­ar­félag Vest­ur­byggðar og Tálkna­fjarð­ar­hrepps en aðspurður segir Páll að ekki sé enn búið að ákveða hvert það verður.

„Við auglýstum eftir tillögum og þær bárust en svo fáum við vonandi fljótlega til baka frá nefndinni þau nöfn sem standast kröfur og lög um nafngift á sameinuðu sveitarfélagi. Svo verður það í höndum íbúa að velja nýtt nafn á sveitarfélagið.“

Bjartsýn á framtíðina

Inntur að lokum eftir því hvort hann sé bjartsýnn á að samstarf flokkanna tveggja verði farsælt og gott segir hann svo vera.

„Algjörlega, ég veit það fyrir víst að fólkið á hinum listanum er líka tilbúið til góðra verka og við höfum átt notalegt samtal og erum nokkuð viss um það að samstarfið verði gott. Enda megum við í rauninni ekki við öðru í svona litlu sveitarfélagi því þó svo að við séum að sameina tvö að þá teljum við innan við 1.500 íbúa.

En það er sama, nú erum við að sameinast og það verður sterk rödd og vonandi verður hún í einingu beggja flokka,“ segir Páll og bætir því við að þau séu mjög bjartsýn á framtíðina í nýju sveitarfélagi.

Jenný Lára Magnadóttir, Páll Vilhjálmsson og Tryggvi Baldur Bjarnason.
Jenný Lára Magnadóttir, Páll Vilhjálmsson og Tryggvi Baldur Bjarnason. mbl.is/Guðlaugur Albertsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert