Segir samtalið við kjósendur rétt að byrja

Halla Tómasdóttir forsetaframbjóðandi.
Halla Tómasdóttir forsetaframbjóðandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Halla Tómasdóttir forsetaframbjóðandi segir að samtalið sem hjálpi kjósendum að átta sig á því hverjir frambjóðendurnir séu, fyrir hvað þeir standa og hver þeirra sýn sé á embættið, sé rétt að byrja. 

„Ég fagna alltaf sígandi lukku og bíð spennt eftir að heyra hvað fólki finnst þegar kappræðuþátturinn, sá fyrsti þar sem við erum öll í samtali, er kominn inn í mengið,“ segir Halla innt eftir viðbrögðum við nýjustu skoðana­könn­un Pró­sents fyr­ir Morg­un­blaðið, en í henni mæl­ist fylgi henn­ar nú 5,1% en var áður 3,9%. 

Halla heldur sér þannig í fimmta sætinu í baráttunni um forsetaembættið, en fyrir ofan hana eru Halla Hrund Logadóttir í toppsætinu, Katrín Jakobsdóttir í öðru sæti, því næst Baldur Þórhallsson og Jón Gnarr í því fjórða. 

Samtal milli frambjóðenda mikilvægur partur af lýðræðinu

„Ég hef fengið gríðarlega sterk viðbrögð síðustu daga úr öllum áttum. Ég beið sjálf svo spennt eftir þessu [samtali milli allra forsetaframbjóðendanna] vegna þess að mér finnst þetta svo mikilvægur partur af lýðræðinu, að samtal með öllum frambjóðendum eigi sér stað. Það byrjaði á föstudaginn og ég vona bara að það verði mörg tilfelli í viðbót.“

Þá segir Halla það upplifun sína að það séu fleiri heldur en færri kjósendur sem enn eiga eftir að ákveða hvern þeir hyggjast kjósa í forsetakosningunum þann fyrsta júní. 

„Ég hef alltaf sagt við kjósendur að það sé mikilvægur hluti af því að taka þátt í lýðræðinu að gefa sér tíma og svigrúm til þess að sjá og hlusta á orð í mynd. Því að það er óneitanlega þannig að sjá okkur tala fyrir því sem við trúum á er mun áhrifaríkara en margt annað. Þess vegna skiptir þetta sjónvarpssamtal mjög miklu máli til að ná til fjöldans,“ segir Halla full bjartsýni á framhaldið. 

Kjósendur hafi beðið eftir samtalinu

Aðspurð segir Halla nóg við að vera, það séu allir dagar þéttir og hún njóti þess að eiga í samtali við kjósendur. Þá kveðst hún vera á leið norður í land á fimmtudag þar sem hún ætlar að vera á faraldsfæti fram á sunnudag. 

„Miðað við viðbrögðin sem við erum að fá úr öllum áttum frá kjósendum þá held ég að þetta [samtalið] sé það sem að kjósendur hafa verið að bíða eftir. Ég vil gefa kjósendum og sýna kjósendum þá virðingu að þeir fái tækifæri til þess áður en þau kveða upp sinn úrskurð um hvern þau vilja kjósa.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert