„Höfum verk að vinna en ég er bjartsýnn“

Baldur Þórhallsson forsetaframbjóðandi.
Baldur Þórhallsson forsetaframbjóðandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er bara mjög ánægður með þennan stuðning sem ég hef og ég skynja mikla stemningu og stuðning fyrir framboði mínu.“

Þetta segir Baldur Þórhallsson forsetaframbjóðandi við mbl.is þegar leitað var eftir viðbrögðum hans við skoðanakönnum Prósents sem birt var í Morgunblaðinu í dag.

Fylgi Baldurs heldur áfram að síga en hann mælist með 20,4 prósenta fylgi en var með 25 prósent í liðinni viku. Ekki mælist tölfræðilega marktækur munur milli Baldurs og Katrínar en fylgi hennar í könnun Prósents mældist 21, prósent. Halla Hrund Logadóttir trónir á toppnum en fylgi hennar mælist 29,7 prósent.

„Við höfum verk að vinna en það eru enn fjórar vikur í kosningarnar og það er ljóst að fylgið er augljóslega á mikilli hreyfingu. En ég er mjög bjartsýnn og spenntur fyrir framhaldinu,“ segir Baldur.

Þykir svo vænt að finna þennan hlýja faðm

Baldur segist hafa verið með opna fundi á Akranesi og í Borgarnesi á laugardaginn og þar hafi hann fengið hlýjar og góðar viðtökur hjá fundargestum. Kosningabarátta hans síðustu þrjár vikur hefur að mestu leyti verið úti á landi og framundan eru fundir á Vestfjörðum.

„Mér þykir svo vænt að finna þennan hlýja faðm sem tekur alls staðar á móti manni út um allt land og í ljósi þess er ég bjartsýnn,“ segir Baldur og bætir því við að á sjötta hundrað sjálfboðaliða séu skráðir til leiks hjá sér sem vinni dag og nótt í kringum framboðið.

Fyrstu kappræður forsetaframbjóðendanna voru haldnar á RÚV á föstudagskvöldið og segist Baldur hafa fengið afar góðar viðtökur eftir þær. Þess má geta  að könnun Prósents var gerð í liðinni viku og fram á gærdag, en þorri svaranna barst áður en sjónvarpskappræðurnar fóru fram.

Fyrst núna að kynna okkur í fjölmiðlum

„Það var mjög gaman að fá að hitta meðframbjóðendur mína í kappræðunum. Við erum fyrst núna að kynna okkur og koma saman í fjölmiðlum. Margt af því fólki sem mætti á fundina hjá mér á Akranesi og í Borgarnesi sagðist hafa tekið ákvörðun hvern þann ætlaði að kjósa eftir kappræðurnar. Það kom mér skemmtilega á óvart.“

Hann segist hafa fengið meiri viðbrögð heldur en á nokkurn sjónvarpsviðburð sem hann hafi tekið þátt í.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert