Sigurður ósáttur: Okkur sem samfélagi til skammar

Sigurður Bragason ræðir við sína leikmenn í kvöld.
Sigurður Bragason ræðir við sína leikmenn í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Andlega vorum við langt frá leiknum, því miður, frá fyrstu mínútu,“ sagði Sigurður Bragason, þjálfari ÍBV, eftir ellefu marka tap síns liðs, 34:23, gegn Valskonum á heimavelli ÍBV í Vestmannaeyjum í kvöld. Valskonur leiða einvígið nú 2:0.

„Þetta var endurtekning á síðasta leik, það er rosalega þungt yfir okkur og þær ganga á lagið. Þegar þú ert með svona gott lið eins og Val, þá salta þær, við verðum að vera með þessi gildi sem við stöndum fyrir í Vestmannaeyjum. Ástæðan fyrir því að við höfum haft gott handboltalið í 10 ár er ekkert endilega besti handboltinn, heldur er það stemning, barátta, gleði og það er ekki til staðar.

Þess vegna er þetta svona, erfitt og þungt,“ sagði Sigurður en það var margt sem angraði hann eftir leikinn, til dæmis hversu snemma leikurinn fór frá þeim.

„Þetta var það sama og á Hlíðarenda, eftir fjórar mínútur, maður var búinn að tyggja það inn í þær að þar brotnum við andlega. Eldri leikmenn eins og Birna, Sunna, Pólverjarnir og Elísa sem ég set líka í þann flokk, þær setja hausinn niður í gólf, það stígur enginn upp og við bara brotnum í mél.“

Sunna Jónsdóttir sækir að marki Vals í kvöld.
Sunna Jónsdóttir sækir að marki Vals í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Svart ský yfir okkur í íþróttum

Þetta var annað stóra tapið í röð gegn Valskonum, væri ekki svekkjandi að enda tímabilið á þremur stórum töpum?

„Það var það sem við vorum að ræða, þetta er ekki Barcelona samt, við erum lítill klúbbur og samstaðan á að vera góð, við eigum að vera vinir og manni á að líða vel. Við viljum ekki enda þetta svona, svo mikið er víst, við erum að glíma við langbesta lið landsins, fullt respect á þær og Gústa. Þetta er ógeðslega gott lið, það eru 7 A-landsliðskonur þarna, en við unnum þetta lið tvisvar í úrslitaleikjum í fyrra, í bikarúrslitum, án Mörtu, og um deildarmeistaratitilinn. Við erum með ósköp svipað lið en vantar auðvitað Hönnu sem er stór factor og ég sakna alveg Hörpu Valeyjar, það koma þó aðrar í staðinn en það er fúlt að við fáum ekki þennan eldmóð hjá öllum hinum.“

Sigurði finnst eitthvað vera í gangi í íþróttalífinu í Vestmannaeyjum.

„Mér finnst vera eitthvað svart ský yfir okkur í íþróttum, ég veit ekki hvað það er, það er allt á blússandi uppsiglingu hérna, allt ógeðslega gaman. Við erum samt alls staðar að skíta, ég fór á bikarleik hjá strákunum í gær, leiðinlegt, svo fór ég á handboltaleik hjá strákunum í gær, dapurt, svo núna þetta. Við þurfum aðeins að kíkja inn á við, í gildin okkar, fara aðeins aftur í tímann og hugsa af hverju erum við svona, alin upp af sjómönnum og vinnuþjörkum, við sýnum það engan veginn.“

Valskonur hafa unnið 20 leiki í röð, líkt og ÍBV gerði á síðustu leiktíð, langar leikmenn ÍBV ekkert að skemma það fyrir þeim?

„Þær eru bara bestar, eru Íslandsmeistarar og bættu við sig landsliðsmarkverðinum, við reynum en ég er ekkert að pæla í að eyðileggja eitthvað met. Okkur líður illa og það er ömurlegt að þetta hafi þurft að vera svona í dag.“

Okkur sem samfélagi til skammar

Hefur liðið gefist upp eða telur Sigurður sig eiga einhver tromp uppi í erminni til þess að vinna Val?

Línukonan Elísa Elíasdóttir.
Línukonan Elísa Elíasdóttir. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Við þurfum að kafa djúpt, við vorum með spjall inni í klefa og stelpurnar eru líka þarna. Það þýðir ekki að vera grenjandi í úrslitakeppni, það er stutt í næsta leik, við munum reyna, að sjálfsögðu, en það er rosalega langt í þetta. Þetta er erfitt, ef við töpum á þriðjudaginn þá vil ég að minnsta kosti að við séum stoltar. Stuðningsmenn vilja ekki sjá svona, við þurfum að kafa inn á við og sýna fólkinu okkar þá virðingu,“ sagði Sigurður en hann var þó ekki í sjöunda himni með mætinguna í kvöld og hafði skýringu þar á.

„Ég verð að segja sem kvennaþjálfari, þá skammaðist ég mín svolítið í dag, fólkið sem kom hérna á völlinn og kemur á alla leiki að við séum með 700 manns í húsinu í gær og brjálaða stemningu í alveg eins einvígi, líka gegn deildarmeisturum.

Við fáum 700 manns í gær en erum enn og aftur með einhvern menningarviðburð í Eyjum ofan í viðburði hjá handboltaliðinu, sem við teljum líka vera menningarstarf. Þegar „Final 4“ úrslitaleikurinn var í gangi í Laugardalshöll þá var Vestmannaeyjabær með árshátíð, tók 700 manns og eyðilagði það fyrir þeim. Núna eru 1.200 manns niðri í bæ að djamma og skemmta sér,“ sagði Sigurður en hann hélt áfram:

„Ég set gífurlegt spurningamerki í úldnum klefa að þetta séu skilaboðin sem við fáum frá yfirvöldum, að henda á brjáluðum menningaviðburði sem er rosalega flottur beint ofan í leikinn okkar. Mér finnst það dapurt, að vera að tala um jafnrétti og kvennaíþróttir, það er ekki gaman fyrir stelpurnar sem við höfum selt það að það sé frábært að vera í ÍBV í úrslitakeppninni.

Þetta var ekki þannig og mér finnst þetta mjög dapurt og leiðinlegt, ég held að það sé mjög erfitt að gíra sig upp í leik, hlaupa inn í brjálaðri eldkynningu og ljósum, sem við erum að gera flott, þegar það eru 150 manns í salnum, það finnst mér vera okkur sem samfélagi til skammar. Þegar vel gengur eru flestir sem stjórna hérna fljótir að birta myndir af sér með þessum hópi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert