Bjóða fólki að færa sig um flug

Viðbragðið er til þess fallið að láta farþega finna sem …
Viðbragðið er til þess fallið að láta farþega finna sem minnst fyrir áhrifum verkfalla. mbl.is/Hörður Sveinsson

Icelandair undirbýr nú sérstakar mótvægisaðgerðir vegna fyr­ir­hugaðar verk­fallsaðgerða á Keflavíkurflug­velli. Verkföll hefjast á fimmtu­dag­ að öllu óbreyttu en farþegar Icelandair sem eru á leið úr landi munu geta fært sig um flug.

„Við vonum auðvitað að deiluaðilar komi að samkomulagi,“ segir Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, í samtali við mbl.is. Á hann þar við um kjaraviðræður Félags flugmálastarfsmanna (FFR) og Sam­eyk­is við samn­inga­nefnd Sam­taka at­vinnu­lífs­ins, sem standa nú yfir í Karphúsinu.

Kjaraviðræður eru á viðkvæmu stigi að sögn FFR. Fund­ur hófst í Karp­hús­inu klukk­an 9 í morg­un og viðræður hafa lítið þokast áfram. 

Fólk á leið úr landi finnur mest fyrir aðgerðunum

Þetta er í þriðja sinn á hálfu ári sem boðað er til aðgerða á Kefla­vík­ur­flug­velli. Í þetta skiptið eru það farþegar á leið úr landi sem verða fyrir mestum áhrifum af fyrirhuguðum verkfallsaðgerðum.

Starfsfólk í öryggisleit og farþegaflutningum leggur niður störf.  Icelandair undirbýr nú sérstakt viðbragð til að bregðast við ef til verkfalla kemur. Viðbragðið er til þess fallið að láta farþega finna sem minnst fyrir áhrifum verkfalla.

„Til dæmis munum við bjóða farþegum á leið frá Íslandi að færa sig á annað flug til síns áfangastaðar. Flestir ættur að geta fært sig yfir á flug sem fer daginn eftir eða daginn áður, eða jafnvel innan sama dagsins,“ segir Guðni enn fremur.

Frá Keflavíkurflugvelli.
Frá Keflavíkurflugvelli. Eggert Jóhannesson

Meirihluti hlynntur aðgerðum

Guðni segir að frekari upplýsingar um fyrirkomulag mótvægisaðgerðanna komi í ljós er nær dregur.

Kl. 16 þann 9. maí tekur ótíma­bundið þjálf­un­arbann til félagsfólks Sam­eykis sem starfar hjá Isa­via ohf. sem leiðbein­end­ur og vottaðir leiðbein­end­ur á gólfi.

Starfsfólk í öryggisleit á Keflavík­ur­flug­velli leggur niður störf kl. 04-08 á föstu­dag­, 10. maí, síðan aftur 16., 17. og 20. maí. Starfs­fólk sem sinn­ir farþega­flutn­ing­um leggur niður störf þessa sömu daga en kl. 8-12.

89,87% þeirra sem greiddu atkvæði kusu með verkfallsaðgerðum, sem hefjast að óbreyttu á fimmtudag. FFR segir við mbl.is að deilan hafi ekki strandað á launaliði kjarasamningsins heldur sértækum atriðum á borð við réttindi í fæðingarorlofi og greiðslur fyrir aukavaktir. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert