Við völtuðum yfir þá

Þorsteinn Leó Gunnarsson.
Þorsteinn Leó Gunnarsson. mbl.is/Árni Sæberg

„Við völtuðum yfir þá eins og planið var,“ sagði Þorsteinn Leó Gunnarsson, einn markahæsti leikmaður Aftureldingar eftir 35:24 sigur Aftureldingar á Stjörnunni í kvöld í átta liða úrslitum á Íslandsmótinu. 

Þetta var þriðji leikur liðanna í einvíginu en oddaleik þurfti til þess að knýja fram úrslit. Valur, FH og ÍBV tryggðu sig í úrslit eftir aðeins tvo leiki.

Fyrri leikur liðanna fór 29:28 fyrir Aftureldingu og seinni og ann­ar 27:25 fyr­ir Stjörn­unni svo leikurinn í dag spilaðist allt öðruvísi en fyrstu tveir.

„Þetta er mjög góð tilfinning, við komum sterkir inn í leikinn og náðum að klára þetta,“ sagði Þorsteinn Leó eftir leikinn í kvöld.

Þorsteinn gat ekki tekið þátt í fyrsta leiknum í einvíginu og kom lítið til sögu í öðrum leiknum.

„Ég var meiddur í öxlinni en hún er í lagi í dag, það gekk allt upp. Ég er með góða menn að hjálpa mér svo ég var fljótur að jafna mig.“

Afturelding mætir Val í næsta leik sem komst í undanúrslit á sunnudaginn eftir sterkan sigur á Fram en Þorsteinn telur auka hvíldina sem Valsarar fá ekki hafa áhrif á leikinn sem er framundan.

„Við verðum klárlega ekki þreyttari. Við náðum að hvíla mannskapinn vel í þessum leik og komum sterkir inn í næsta leik,“ sagði Þorsteinn en þar sem Valur er í Evrópukeppni er það líklegast rétt.

„Ég er mjög spenntur fyrir leiknum, þetta verður skemmtilegt einvígi og við eigum góðan séns í þá.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert