„Eigum eftir að sjá miklar sviptingar“

Fylgi Katrínar Jakobsdóttur í könnun Prósents er nú 18% en …
Fylgi Katrínar Jakobsdóttur í könnun Prósents er nú 18% en var 24% í síðustu viku. mbl.is/Arnþór Birkisson

Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, segist vera pollróleg yfir nýjustu skoðanakönnun Prósents fyrir Morgunblaðið en í henni mælist fylgi hennar nú 18% en var 24% í liðinni viku.

Katrín er þar með fallin niður í þriðja sætið í baráttunni um forsetaembættið en fyrir ofan hana eru Baldur Þórhallsson og Halla Hrund Logadóttir, sem trónir í toppsætinu.

„Ég var nú búin að spá því að það yrðu miklar sviptingar fram undan í fylgi og ég held að það eigi áfram eftir að vera þannig,“ segir Katrín í samtali við mbl.is.

Katrín var stödd á veginum um Öxi þegar mbl.is náði tali af henni en hún eins og aðrir frambjóðendur eru á fleygiferð um landið að kynna sín framboð. 

Eins og áður segir hefur fylgi Katrínar fallið um sex prósent frá síðustu könnun Prósents. Katrín segir að það komi sér ekki á óvart að fylgið sé á töluverðri hreyfingu. 

Er alveg pollróleg 

„Það er langt í kosningar og ég held að við eigum eftir að sjá miklar sviptingar í fylgismælingum. Ég er alveg pollróleg yfir þessu.“

Hefur þú einhverja einhlíta skýringu hvers vegna fylgi þitt sé á niðurleið miðað við þessa könnun?

„Nei. Ég held að við séum á upphafsmetrum þessarar baráttu og það eiga eftir að koma ansi margar kannanir sem verða mismunandi,“ segir Katrín.

Hún reiknar með að baráttan um Bessastaði verði hörð allt til loka en kosið verður til embættis forseta Íslands þann 1. júní. Í könnun Prósents var einnig spurt hvaða frambjóðanda fólk teldi líklegastan til þess að fá flest atkvæði í forsetakjörinu. Katrín hefur þar afgerandi forystu, en 35,3% töldu hana sigurstranglegasta. Næstur kom Baldur Þórhallsson með 29,5%.

Renndi blint í sjóinn

„Þetta verður spennandi allt til loka. Þegar ég fór út í þessa baráttu lét ég ekki kanna landslagið og ég renndi þannig blint í sjóinn. Ég hef skilning á því að fólk hafi alls konar skoðanir á mér en ég hef líka trú á því mín barátta eigi eftir að skila sér. Mér finnst ég vera að fá gríðarlega góðar móttökur hvar sem ég er.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert