Ákærður fyrir heimilisofbeldi

Jakob Ingebrigtsen sakaði föður sinn um ofbeldi og harðræði í …
Jakob Ingebrigtsen sakaði föður sinn um ofbeldi og harðræði í æsku. AFP/Ozan Kose

Norsk lögregluyfirvöld skýrðu frá því í morgun að Gjert Ingebrigtsen, faðir og fyrrverandi þjálfari norska ólympíumeistarans í 1.500 metra hlaupi karla, Jakobs Ingebrigtsens, hefði verið ákærður fyrir heimilisofbeldi gagnvart fjölskyldumeðlim.

Fréttastofa AFP skýrir frá þessu og fjallar um mál feðganna en þar koma einnig tveir bræður Jakobs við sögu, þeir Henrik og Filip, sem líka eru þekktir frjálsíþróttamenn. 

Norðmenn urðu margir hverjir fyrir áfalli í október á síðasta ári þegar bræðurnir ásökuðu föður sinn um ofbeldi.

„Við ólumst upp hjá mjög árásargjörnum og drottnandi föður sem beitti líkamlegu ofbeldi og hótunum í uppeldinu,“ skrifuðu þá bræðurnir í samvinnu við dagblaðið VG.

„Við finnum enn fyrir óþægindum og ótta sem hefur hrjáð okkur frá barnæsku,“ sögðu þeir enn fremur.

Lögregluyfirvöld hófu rannsókn á þessum ásökunum og skýrðu frá því í morgun að saksóknari hefði ákveðið að ákæra föðurinn fyrir heimilisofbeldi gagnvart einu barna sinna. Rannsóknum á öðrum atvikum hafi verið hætt vegna skorts á sönnunum eða þar sem tímamörk hefðu verið útrunninn.

Málið snýst um yngra systkini

Samkvæmt heimildum AFP snýst umrætt mál ekki um einhvern frjálsíþróttabræðranna þekktu heldur yngra systkini þeirra.

Sagt er að á fjögurra ára tímabili, frá 2018 til 2022, hafi Gjert Ingebrigtsen ítrekað beitt umrætt barn ofbeldi á ýmsan hátt og m.a. slegið það í andlitið með hönd eða handklæði. Þetta fékkst þó ekki staðfest hjá Therese Braut Vage, sem hafði yfirumsjón með rannsókninni. 

Gjert, sem var þjálfari Jakobs fram yfir Ólympíuleikana 2021 í Tókýó þar sem sonurinn vann gullverðlaunin, hefur ávallt neitað öllum ásökunum og lögfræðingur hans sagði við AFP að engar sannanir væru fyrir hendi um að neitt saknæmt hefði átt sér stað.

Jakob Ingebrigtsen, sem er 23 ára, er sigursælastur bræðranna en hann hefur tvisvar orðið heimsmeistari í 5.000 metra hlaupi ásamt því að hafa fengið ólympíugullið í 1.500 metrunum. Hann býr sig undir keppni á Ólympíuleikunum í París í sumar.

Bræður hans, Henrik og Filip, sem eru 33 og 31 árs gamlir, unnu sinn hvorn Evrópumeistaratitilinn í 1.500 metra hlaupi árin 2012 og 2016.

Þegar Gjert Ingebrigtsen hætti að þjálfa syni sína tók hann við þjálfun annars norsks hlaupara, Narve Gilje Nordas, frjálsíþróttaforkólfum í Noregi til lítillar ánægju.

Norska ólympíunefndin hefur lýst því yfir að Gjert fái ekki aðgang að Ólympíuleikunum í París í sumar en hann var einnig útilokaður frá heimsmeistaramótinu í frjálsíþróttum á síðasta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert