Albert þakkar hollenskum stjörnuþjálfurum

Albert Guðmundsson leikur með Genoa.
Albert Guðmundsson leikur með Genoa. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Albert Guðmundsson segir að kunnir hollenskir knattspyrnumenn hafi haft áhrif á sig sem þjálfarar þegar hann hóf ferilinn í atvinnumennsku í Hollandi á sínum tíma.

Albert var í unglingaliði Heerenveen og var síðan í varaliðum og aðalliðum PSV Eindhoven og AZ Alkmaar á ferli sínum í Hollandi.

„Þegar ég var hjá PSV voru margar gamlar stjörnur í hópi aðstoðarþjálfara hjá unglingaliðunum. Þar voru menn eins og Ruud van Nistelrooij, Mark van Bommel og Boudewijn Zenden,“ segir Albert við enska fjölmiðilinn The Telegraph.

Hjá AZ lék Albert eitt og hálft tímabil undir stjórn Arne Slot, sem nú er að öllum líkindum á leið til Liverpool. „Ég er viss um að hann getur stjórnað liði í fremstu röð. Ég var ekki alltaf í liðinu hjá honum en sá hvernig hann bjó liðið undir leikina, bæði hvað varðaði leikskipulag og andlegu hliðina,“ hefur De Telegraaf eftir Alberti, sem missti af stórum hluta tímabilsins 2019-20 vegna meiðsla en það var eina heila tímabil Slots með AZ áður en hann fór til Feyenoord.

Albert er þriðji markahæsti leikmaður ítölsku A-deildarinnar á tímabilinu með 13 mörk fyrir nýliða Genoa en hann var á dögunum orðaður við meistaraliðið Inter Mílanó í ítölskum fjölmiðlum og hefur áður verið orðaður við Juventus.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert