Alltof mikið að hann skori fimmtán mörk

FH-ingurinn Einar Bragi Aðalsteinsson skýtur að marki ÍBV í Kaplakrika …
FH-ingurinn Einar Bragi Aðalsteinsson skýtur að marki ÍBV í Kaplakrika í kvöld en Sigtryggur Daði Rúnarsson reynir að stöðva hann. mbl.is/Óttar Geirsson

Sigursteinn Arndal þjálfari FH var eðlilega svekktur með að lið hans FH hafi ekki tryggt sér farseðilinn í úrslitaeinvígið í Íslandsmóti karla í handbolta þegar liðið tapaði fyrir ÍBV í Kaplakrika í hádramatískum leik.

Liðin mætast því aftur 1. maí og þá í Vestmannaeyjum. Mbl.is ræddi um leikinn við Sigurstein:

Hvernig metur þú þennan leik í kvöld?

„Þetta var leikur tveggja mjög góðra handboltaliða. ÍBV var með frumkvæðið framan af síðari hálfleik og við vorum ekki alveg á þeim stað sem við vorum til að mynda fyrir þremur dögum síðan. Þú þarft á öllu þínu að halda í svona einvígum til að ná fram sigri. Við förum yfir þetta núna fyrir leikinn á miðvikudaginn. Staðan er núna bara 2:1 og við förum til Eyja á miðvikudag til að vinna."

Hvað hefði mátt fara betur í ykkar leik í kvöld?

„Þú þarft að hafa rosalega mikið fyrir hverju marki þegar svona langt er komið inn í úrslitakeppni en ég hefði viljað sjá okkur ná fram fleiri stoppum á Elmar Erlingsson sem var frábær í dag. Það er alltof mikið að hann skori 15 mörk á okkur í einum leik, það gefur augaleið."

Hvað þarf FH að gera til að ná fram sigri gegn ÍBV í Eyjum á miðvikudag?

Sigursteinn Arndal þjálfari FH.
Sigursteinn Arndal þjálfari FH. Ljósmynd/Sigfús/Gunnar

„Við þurfum að ná fram samskonar leik og fá sömu frammistöðu og fyrir þremur dögum. Það er alveg hægt. Nú snýst þetta bara um að ná fram góðri endurheimt, safna kröftum og vera klárir í næsta leik. Þetta er bara úrslitakeppnin."

Eru ánægður með varnarleikinn í dag?

„Heilt yfir var þetta ágætt. Það eru samt ákveðin atriði sem ég var ekki ánægður með og ég þarf að fara yfir það og við lögum það fyrir næsta leik."

FH vill væntanlega ekki enda í oddaleik í Kaplakrika er það nokkuð?

„Nei alls ekki. Við mættum hér í dag til að vinna og því miður þá gekk það ekki upp. Við mætum til Eyja á miðvikudag til að vinna. Ég vona innilega að allt það frábæra fólk sem kom með okkur til Eyja síðast og fleiri til taki rúntinn með okkur á miðvikudag og búi til frábæra umgjörð líkt og var hér í kvöld. Ég vil þakka okkar stuðningsmönnum fyrir frábæra stemmningu í kvöld." Sagði Sigursteinn í samtali við mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert