Fimmtán ára hetjan á leið til FCK: Sætt fyrsta mark

Viktor Bjarki Daðason eftir leikinn á Hlíðarenda í kvöld.
Viktor Bjarki Daðason eftir leikinn á Hlíðarenda í kvöld. mbl.is/Víðir Sigurðsson

Viktor Bjarki Daðason var fimmtán ára gömul hetja Framara í kvöld þegar hann jafnaði fyrir þá, 1:1, á 90. mínútu í Bestu deild karla í fótbolta á Hlíðarenda.

Hann er þar með þriðji yngsti markaskorarinn í sögu deildarinnar.

Þetta var hans fyrsti leikur í deildinni í ár en síðasta haust lék Viktor fjóra deildarleiki með Fram og varð þá fimmti yngsti leikmaður sögunnar til að spila í deildinni.

Viktor bætti um betur í kvöld og er nú þriðji yngsti markaskorarinn á eftir Eiði Smára Guðjohnsen og Þórarni Kristjánssyni sem einnig skoruðu 15 ára gamlir árin 1994 og 1996.

„Fred tók aukaspyrnuna, Þorri skallaði boltann fyrir markið og ég var mættur á vítapunktinn og setti boltann í markið með vinstri. Ég sá aðeins á eftir boltanum, ég náði að „glotta" aðeins í hann þegar hann fór í þaknetið. Þetta var sætt fyrsta mark í deildinni," sagði Viktor við mbl.is eftir leikinn en hann verður 16 ára í lok júní.

Viktor hefur verið löglega afsakaður í fyrstu umferðunum en hann hefur æft með unglingaliði FC Köbenhavn í Danmörku og er á leið til félagsins í sumar frá Fram.

„Ég hef verið í Danmörku undanfarið og æft með FCK. Síðan kom ég heim og hef æft vel með liðinu í eina viku, fékk svo þetta tækifæri til að koma inn á í kvöld og skoraði bara!"

Ég var búinn að fá fimm leiki með meistaraflokknum í fyrra og svo nokkra á undirbúningstímabilinu. Ég hafði það á tilfinningunni að ég væri að fara að skora í dag. Þetta lá í loftinu," sagði Viktor sem kom inn á sem varamaður á 73. mínútu og skapaði strax usla í vörn Valsmanna.

Fer daginn eftir afmælið

Hann getur leikið með Frömurum út fyrri umferðina en er á förum til Danmerkur daginn eftir 16 ára afmælið.

„Ég fer út 1. júlí þegar glugginn er opnaður í Danmörku. Það er allt mjög flott hjá FCK, aðstæðurnar þar eru geggjaðar og margir Íslendingar hafa farið í gegn hjá þeim," sagði Viktor.

Ég vonast til þess að fá að spila eins marga leiki og mögulegt er áður en ég fer út. Það er alltaf gaman að spila fyrir uppeldisfélagið og við náðum í gott stig hérna á Hlíðarenda í kvöld, það var gott að geta bjargað því," sagði Viktor.

Allt stefndi í tap Framara þegar Viktor bjargaði málunum. "Valsmenn byrjuðu sterkt í seinni hálfleik eftir að við höfðum verið betri í fyrri hálfleik. En svo komum við okkur í gang og kláruðum þetta," sagði Viktor Bjarki Daðason.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert