Andrea og Snorri íþróttafólk Reykjavíkur

Alexander Júlíusson, fyrirliði Vals, ásamt þeim Andreu Kolbeinsdóttur og Snorra …
Alexander Júlíusson, fyrirliði Vals, ásamt þeim Andreu Kolbeinsdóttur og Snorra Einarssyni. Ljósmynd/Silja Úlfarsdóttir

Langhlauparinn Andrea Kolbeinsdóttir og skíðagöngumaðurinn Snorri Einarsson voru útnefnd Íþróttafólk Reykjavíkur við hátíðlega athöfn í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag. Þá var karlaliðs Vals í handknattleik útnefnt íþróttalið Reykjavíkur en liðið varð deildar-, bikar- og Íslandsmeistari á árinu.

Andrea Kolbeinsdóttir:

Andrea, sem er 23 ára gömul, er sigursælasti hlaupari kvenna á Íslandi 2022. Andrea var í 21. sæti á Heimsmeistaramótinu í utanvegahlaupum í Tælandi. Andrea náði einnig 2. sæti í sterku utanvegahlaupi í Wildstrubel í Sviss á árinu. Andrea hefur sýnt það á árinu að hún getur sigrað hlaup allt frá 5 km upp í 55 km.

Andrea er  Íslandsmeistari í maraþoni, en hún sigraði Reykjavíkurmaraþonið á öðrum besta tíma kvenna frá upphafi. Þá er hún Íslandsmeistari í 5 km, 10 km og 8 km Víðavangshlaupi. Andrea sigraði í Laugaveghlaupinu á nýju brautarmeti kvenna, ásamt því að sigra öll stærstu hlaupin hér á landi eins og Tindahlaupið, Fimmvörðuhálshlaupið, Súlur Vertical, Snæfellsjökulhlaupið og fleira.

Snorri Einarsson:

Snorri náði besta árangri skíðagöngumanns á Íslandi frá upphafi á Vetrarólympíuleikunum í Peking. Á Ólympíuleikunum náði hann 23. sæti í 50 km skíðagöngu með frjálsri aðferð, 29. sæti í 30 km skiptiganga, 36. sæti í 15 km skíðagöngu með hefðbundinni aðferð og varð í 19. sæti í liða sprettinum.

Snorri varð einnig í 13. sæti á alþjóðlegu FIS móti í 15 km með frjálsri aðferð. Snorri er einnig þrefaldur Íslandsmeistari í skíðagöngu á árinu í 10 km göngu með frjálsri aðferð, 15 km með hefðbundinni aðferð og í 1 km sprettgöngu. Þá sigraði Snorri einnig í 10 km hlaupið í Reykjavíkurmaraþoninu.

Karlalið Vals:

Handknattleikslið Vals náði frábærum árangri 2022, þeir eru Íslands-, bikar-, og deildarmeistarar. Þá byrjar tímabilið þeirra vel hérlendis og þá hafa þeir einnig verið frábærir í Evrópukeppninni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert