Telja Potter fullkominn fyrir sig

Graham Potter gæti verið á leið til Ajax.
Graham Potter gæti verið á leið til Ajax. AFP/Darren Staples

Hollenska knattspyrnustórveldið er sagt hafa sett meiri alvöru en áður í að fá Englendinginn Graham Potter til liðs við sig fyrir næsta tímabil.

Potter var á dögunum orðaður við starf knattspyrnustjóra Ajax og nú segir The Telegraph að Ajax sé komið á fulla ferð í að reyna að fá hann til að taka við því. Hjá Ajax sé litið á Potter sem hinn fullkomna þjálfara til næstu ára.

John van't Schip hættir störfum hjá Ajax eftir tímabilið en hann var í október ráðinn til bráðabirgða til vorsins.

Staða Ajax er óvenju slæm en liðið er í fimmta sæti þegar tveimur umferðum er ólokið og kemst ekki ofar í deildinni. Liðið þarf að fara í umspil um Evrópusæti en Ajax hefur hingað til geta bókað fast sæti í Evrópumótum, oftast í Meistaradeildinni.

Potter hefur einnig verið orðaður við keppinautana í Feyenoord sem missa Arne Slot til Liverpool eftir tímabilið, sem og við Manchester United og AC Milan.

Potter, sem er 48 ára gamall, hefur verið atvinnulaus síðan honum var sagt upp hjá Chelsea í byrjun apríl 2023 en hann var aðeins í sjö mánuði í starfi knattspyrnustjóra Lundúnafélagsins.

Áður stýrði hann Brighton og Swansea en sló fyrst í gegn sem þjálfari sænska liðsins Östersund í sjö ár.

Með Ajax leikur landsliðsmaðurinn ungi Kristian Nökkvi Hlynsson en hann vann sér fast sæti í aðalliði félagsins í haust eftir að hafa spilað með varaliði Ajax í B-deildinni undanfarin þrjú tímabil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert