Trú­in sem við höf­um á okk­ur er óbilandi

Víkingur er meistari meistaranna eftir sigur á Val í kvöld.
Víkingur er meistari meistaranna eftir sigur á Val í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér líður svo vel. Öll erfiðisvinnan á undirbúningstímabilinu er að skila sér,“ sagði kampakát Selma Dögg Björgvinsdóttir, fyrirliði Víkings úr Reykjavík, eftir að liðið tryggði sér titilinn meistari meistaranna í fótbolta með sigri á Val á Hlíðarenda.

Úrslitin réðust í vítakeppni, eftir 1:1-jafntefli í venjulegum leiktíma. „Ég er frekar slök týpa að eðlisfari, svo ég var pollróleg og hafði trú á mínum leikmönnum,“ sagði Selma, sem skoraði af punktinum í vítakeppninni.

Víkingur lék fyrri hálfleikinn mjög vel, en seinni hálfleikur var erfiðari. Valskonur fengu fín færi til að vinna leikinn, en Víkingsliðið hélt út og náði að knýja fram vítakeppni.

Selma fagnar með liðsfélögum sínum.
Selma fagnar með liðsfélögum sínum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta var mjög kaflaskiptur leikur. Við vorum frábærar í fyrri hálfleik en svo vorum við týndar stóran hluta seinni hálfleiks. Við sýndum karakter og liðsheild og náðum að halda áfram að standa í þeim í seinni hálfleik,“ sagði hún.

Víkingur átti draumatímabil á síðustu leiktíð. Liðið vann 1. deildina sannfærandi og varð síðan bikarmeistari, fyrst liða utan efstu deildar.

„Við erum búnar að vera að tapa leikjum á undirbúningstímabilinu, en við erum búnar að vera að byggja upp síðan þá. Við fórum inn í þennan leik með óbilandi trú, eftir að við unnum Breiðablik í bikarúrslitum í fyrra.

Við erum orðnar smá sjóaðar í svona leikjum, þótt Valur sé búinn að vinna marga titla og það er nýtt fyrir okkur að mæta svona liði. Trúin sem við höfum á okkur er óbilandi,“ útskýrði Selma.

Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir sækir að marki Víkings í kvöld.
Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir sækir að marki Víkings í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Víkingur verður nýliði í Bestu deildinni á komandi leiktíð og það gefur liðinu kraft og trú að vinna Íslandsmeistarana á útivelli rétt fyrir Íslandsmótið.

„Það er geggjað að vinna þennan leik, á móti liði sem er spáð fyrsta sæti. Þær voru með sitt besta lið og við með okkar besta lið. Þetta sýnir okkur að það er allt hægt. Við erum með það gott lið að við getum allt sem við ætlum okkur.

Við verðum samt að halda rétt á spöðunum. Við erum ekki með breiðasta hóp í heimi akkúrat núna en við erum með svo skemmtilega blöndu í liðinu af reynslumiklum leikmönnum og fáránlega góða unga leikmenn. Þetta er geðveikt,“ sagði Selma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert