2. umferð: Fljótastur að skora þrennu í 16 ár

Viktor Jónsson skoraði þrennu á aðeins tíu mínútum fyrir ÍA …
Viktor Jónsson skoraði þrennu á aðeins tíu mínútum fyrir ÍA gegn HK. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Viktor Jónsson skoraði fyrstu þrennu tímabilsins í Bestu deild karla í fótbolta og fyrstu þrennu Skagamanns í deildinni í átta ár þegar ÍA vann HK, 4:0, í annarri umferð deildarinnar í Kórnum í Kópavogi á sunnudaginn.

Þetta er jafnframt fyrsta þrenna Viktors í efstu deild en hann hefur á undanförnum árum sett svip sinn á 1. deildina og í fyrra skoraði hann bæði fernu og þrennu fyrir Skagamenn þar.  Fernu í sigri á Aftureldingu, 5:2, og þrennu í sigri á Þrótti úr Reykjavík, 6:3.

Annað mark Viktors í leiknum, þegar hann kom ÍA í 3:0, var sannkallað tímamótamark hans á ferlinum. Það var 100. mark þessa beinskeytta framherja í deildakeppninni, og mörkin eru því orðin 101 talsins. Þar af eru 79 mörk í 1. deild, fyrir Víking R., Þrótt R. og ÍA. Í úrvalsdeild hefur hann skorað 22 mörk, þar af 17 fyrir ÍA og fimm fyrir Víking.

Síðastur Skagamanna til að skora þrennu á undan Viktori var Garðar Bergmann Gunnlaugsson árið 2016 en þá skoraði hann þrjú mörk í sigri á Stjörnunni, 4:2.

Viktor er jafnframt fljótastur allra til að skora þrennu í deildinni í 16 ár en mörkin þrjú komu á tíu mínútna kafla. Síðastur á undan honum til að ná því var danski framherjinn Iddi Alkhag sem skoraði þrennu fyrir HK á tíu mínútum í sigri á Val, 4:2, árið 2008.

Metið í efstu deild frá stofnun hennar árið 1955 á hins vegar Þórólfur Beck. Hann skoraði þrennu á fimm mínútum fyrir KR gegn ÍBH úr Hafnarfirði árið 1958.

Fljótastir til að skora þrennur í efstu deild frá 1955 eru eftirtaldir, í mínútum:

5 - Þórólfur Beck fyrir KR gegn ÍBH árið 1958.
7 - Hörður Felixson fyrir KR gegn Víkingi R. árið 1955.
8 - Ragnar Hauksson fyrir ÍA gegn Stjörnunni árið 1997.
9 - Sveinn Jónsson fyrir KR gegn Val árið 1960.
9 - Tryggvi Guðmundsson fyrir ÍBV gegn Val árið 1997.
10 - Andri Sigþórsson fyrir KR gegn Stjörnunni árið 2000.
10 - Iddi Alkhag fyrir HK gegn Val árið 2008.
10 - Viktor Jónsson fyrir ÍA gegn HK árið 2024.

Óskar Örn Hauksson jafnaði leikjametið í deildakeppninni í gærkvöld þegar hann kom inn á sem varamaður hjá Víkingi gegn Fram. Þetta var 439. leikur Óskars í öllum deildum Íslandsmótsins og hann jafnaði við Gunnleif Gunnleifsson sem hefur átt metið frá árinu 2019. Nánar um það í þessari frétt:

Guðmundur tekur við af Sigurði

Sigurður Egill Lárusson var ekki lengi sá leikmaður í efstu deild sem hefur leikið lengst án þess að missa úr leik. Hann tók við af Hallgrími Mar Steingrímssyni í 1. umferðinni og hafði þá leikið 51 leik í röð með Val. Sigurður missti hins vegar af leik Vals við Fylki í fyrrakvöld. Þar með er Guðmundur Magnússon úr Fram kominn með flesta leiki í röð af þeim sem núna spila í deildinni en hann hefur spilað síðasta 41 leik Framara.

Guðmundur Magnússon í leik Fram og Víkings í gærkvöld. Hann …
Guðmundur Magnússon í leik Fram og Víkings í gærkvöld. Hann hefur nú leikið lengst samfleytt í deildinni af núverandi leikmönnum hennar. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Kristijan Jajalo, markvörður KA, lék sinn 100. leik í efstu deild þegar Akureyrarliðið beið lægri hlut fyrir FH. Þar af eru 58 leikir fyrir KA og 42 fyrir Grindavík. Kristijan er 31 árs Bosníumaður og hefur leikið hér á landi frá árinu 2016.

Axel Óskar Andrésson skoraði sitt fyrsta mark í deildinni þegar KR vann Stjörnuna, 3:1. Þetta var hans annar leikur eftir að hafa komið til KR frá Örebro í Svíþjóð.

Dagur Örn Fjeldsted skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild þegar Breiðablik vann Vestra 4:0. Markið kom í hans fjórða leik í deildinni.

Fyrsti leikmaðurinn í deildinni til að fá rautt spjald á tímabilinu var Elvar Baldvinsson hjá Vestra í tapleiknum gegn Breiðabliki á laugardag. Daginn eftir fékk Þorsteinn Aron Antonsson hjá HK rauða spjaldið gegn ÍA. Elvar og Þorsteinn léku báðir sinn annan leik í efstu deild í umferðinni.

Magnús Arnar Pétursson úr HK, Hrafn Guðmundsson úr KR og Theodór Ingi Óskarsson úr Fylki stigu sín fyrstu skref í efstu deild í annarri umferðinni.

Erlendu leikmennirnir Daniel Obbekjær úr Breiðabliki og þeir Fatai Gbadamosi og Tony King úr Vestra spiluðu sinn fyrsta leik í deildinni í 2. umferð.

Úrslit­in í 2. um­ferð:

Stjarnan - KR 1:3
Breiðablik - Vestri 4:0
KA - FH 2:3
HK - ÍA 0:4
Fylkir - Valur 0:0
Fram - Víkingur R.  0:1

Marka­hæst­ir í deild­inni:
3 Viktor Jónsson, ÍA
2 Atli Sig­ur­jóns­son, KR

Næstu leik­ir:
19.4. Stjarnan - Valur
20.4. HK - FH
20.4. KR - Fram
21.4. KA - Vestri
21.4. ÍA - Fylkir
21.4. Víkingur R. - Breiðablik

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert