Óskar jafnaði leikjamet Gunnleifs

Óskar Örn Hauksson á leiðinni inn á völlinn í búningi …
Óskar Örn Hauksson á leiðinni inn á völlinn í búningi Víkings í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Óskar Örn Hauksson jafnaði sögulegt met í íslenskum fótbolta þegar hann kom inn á sem varamaður hjá Víkingi gegn Fram í Bestu deild karla í Úlfarsárdalnum í kvöld.

Óskar, sem spilaði sinn fyrsta deildarleik fyrir Víking, jafnaði leikjametið í íslensku deildakeppninni í karlaflokki en þetta var hans 439. leikur í öllum deildum Íslandsmótsins.

Með því jafnaði hann við markvörðinn Gunnleif Gunnleifsson sem lék 439 deildaleiki og hefur átt leikjametið frá árinu 2019.

Gunnleifur lék 304 leiki í efstu deild með KR, Keflavík, HK, FH og Breiðabliki og 135 leiki í neðri deildum með HK og KVA.

Óskar á jafnframt leikjametið í efstu deild, spilaði þar sinn 374. leik gegn Víkingi, en hefur jafnframt leikið 65 leiki í neðri deildunum með Njarðvík og Grindavík. Í efstu deild lék Óskar lengst með KR en einnig með Grindavík og Stjörnunni áður en hann kom til liðs við Víkinga fyrir þetta tímabil. Hjá þeim er hann bæði í hlutverki styrktarþjálfara og leikmanns.

Annar stór áfangi Óskars

Óskar náði öðrum áfanga í kvöld því leikurinn gegn Víkingi var hans 450. deildaleikur á ferlinum, heima og erlendis. Auk leikjanna 439 hér á landi hefur hann spilað 11 leiki í deildakeppni erlendis, í Noregi og Kanada. Hann er aðeins átjándi íslenski knattspyrnumaðurinn í sögunni sem nær að spila 450 deildaleiki á ferlinum.

Aðeins fimm knattspyrnumenn hafa leikið 400 deildaleiki eða fleiri með íslenskum liðum og þeir eru eftirtaldir:

439 Gunnleifur Gunnleifsson
439 Óskar Örn Hauksson
424 Gunnar Ingi Valgeirsson
408 Hjörtur Júlíus Hjartarson
400 Mark Duffield

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert