Lið sem var ekki tilbúið að fara á EM

Arnór Ingvi Traustason situr í grasinu eftir tapið gegn Úkraínu.
Arnór Ingvi Traustason situr í grasinu eftir tapið gegn Úkraínu. Ljósmynd/Alex Nicodim

„Frammistaðan var mjög góð í fyrri hálfleik, mjög góður og agaður varnarleikur og allt gott um það að segja. Þetta leit vel út, við skoruðum frábært mark og leiðum í hálfleik,“ sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari karlaliðs Fram í knattspyrnu, í samtali við Morgunblaðið.

Þar var hann beðinn að rýna í 2:1-tap íslenska karlalandsliðsins fyrir því úkraínska í úrslitaleik umspils um laust sæti á EM 2024 í Wroclaw í Póllandi á þriðjudagskvöld. Áður hafði Ísland lagt Ísrael örugglega að velli, 4:1, í undanúrslitum umspilsins í Búdapest fyrir viku.

Úrslitin á þriðjudag þýða að Úkraína fer á EM í Þýskalandi í sumar en Ísland situr eftir með sárt ennið.

Nánast sex manna varnarlína

„Frammistaðan var mjög góð og varnarlega fannst mér við ekki gefa mikið af færum á okkur. Við vörðumst vel en þegar fór að síga á seinni hlutann í fyrri hálfleik vorum við farnir að færast fullaftarlega.

Þegar líður á leikinn verður þetta meiri varnarleikur og við föllum allt of djúpt. Úkraínumenn þrýsta okkur neðar á völlinn og það er aldrei gott þegar kantmenn í þessu leikkerfi sem við spilum, 4-4-2 eða 4-4-1-1, detta svona neðarlega.

Við vorum nánast komnir með sex manna varnarlínu þegar leið á síðari hálfleik. Þegar þú vinnur boltann eru kantmennirnir mjög neðarlega og þú kemst aldrei út úr þessu, náum aldrei að halda boltanum og koma okkur fram völlinn.

Við kannski föllum fulldjúpt og stundum gerist þetta í fótbolta. Menn eru að verja eitthvað og ætla að halda í 1:0 með kjafti og klóm, sem gerist ósjálfrátt. Hvort þetta hafi verið ákveðin taktík eða ekki get ég ekki sagt til um en svona þróaðist þetta,“ hélt Rúnar áfram.

Viðtalið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert