Prófaðu að setja 0,9 sekúndur á skeiðklukku

Lárus Jónsson er þjálfari Þórs úr Þorlákshöfn.
Lárus Jónsson er þjálfari Þórs úr Þorlákshöfn. Ljósmynd/Guðmundur Karl
Lárus Jónsson þjálfari Þórs úr Þorlákshöfn var að vonum svekktur með grátlegt tap gegn Njarðvík í Ljónagryfjunni í kvöld í oddaleik átta liða úrslitanna á Íslandsmóti karla í körfuknattleik.

Með tapinu er ljóst að Njarðvík fer áfram í undanúrslitaseríuna gegn Val á meðan Þór er komið í sumarfrí. Við spurðum Lárus hversu svekkjandi þetta tap í kvöld væri en Njarðvík skoraði sigurkörfuna eftir að hafa kastað boltanum inn þegar 90/100 úr sekúndu voru eftir af framlengingu.

„Þetta er gríðarlega svekkjandi og ég væri til í að fá að sjá tímasetningu á þessari körfu. Hann grípur boltann, færir hann niður og skýtur á körfuna. Það á ekki að vera hægt á 0,9 sekúndum. Það munar um það ef þeir bíða aðeins með að setja klukkuna í gang."

Var þetta ekki allt mælt og skoðað?

„Prófaðu að setja 0,9 sekúndur á skeiðklukku, þetta er ekki ein sekúnda. Þetta er einn smellur. Er hægt að grípa, beygja sig og skjóta á þessum tíma?"

En þetta er staðreyndin eins og staðan er núna. Ef við ræðum leikinn sjálfan, ertu ánægður með frammistöðu Þórs í kvöld?

„Já ég er gríðarlega stoltur af strákunum. Auðvitað voru mistök hjá báðum liðum en við vorum að gera akkúrat hluti sem maður vill að liðið sitt geri. Þá er ég að tala um baráttu, berjast fyrir stöðu, berjast fyrir fráköstum og fleira. Síðan er spennustigið hátt og menn voru að setja stór skot."

Ef þú horfir hratt til baka. Eitthvað sem þú hefðir átt að gera öðruvísi í þessum leik?

„Nei í rauninni ekki. Við áttum síðasta skotið sem átti að vera fyrir sigrinum. Við vorum með frábæran varnarleik og strákarnir stóðu sig bara óaðfinnanlega."

Nú er tímabilið búið hjá Þór. Eru breytingar framundan hjá liðinu?

„Við vorum með tvö markmið fyrir þetta tímabil. Hið fyrra var að verða Íslandsmeistari sem verður ekki af en hitt var að gera Tómas Val að alvöru leikmanni og við náðum öðru markmiðinu. Búið að vera frábært að sjá hvernig hann hefur þroskast og það verður frábært að sjá meira af honum í framtíðinni hvar sem hann verður. Varðandi aðra leikmenn þá eru bara Dabbi, Emil og Raggi á samning."

Verður Tómas Valur áfram í Þór?

„Við skulum bara leyfa honum að ákveða það sjálfum og svara því á sínum forsendum."

Verður þjálfarinn áfram?

„Ég fer ekki nema Jóhanna reki mig. En annars mætum við í næsta tímabil til að vinna titilinn." sagði Lárus í samtali við mbl.is.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert