Einn sá áhugaverðasti á Norðurlöndum

Logi Tómasson átti góðu gengi að fagna með Víkingi áður …
Logi Tómasson átti góðu gengi að fagna með Víkingi áður en hann fór til Noregs. mbl.is/Eyþór Árnason

Logi Tómasson, leikmaður Strömsgodset, er einn af fjórum áhugaverðum leikmönnum í norsku og sænsku knattspyrnunni sem vefmiðillinn JustFootball telur að gætu verið á innkaupalista margra félaga í sumar.

Strömsgodset keypti Loga af Víkingi í ágúst á síðasta ári, fyrir tæpar 40 milljónir íslenskra króna samkvæmt JustFootball, sem segir að hann gæti verið seldur síðar á þessu ári fyrir fjórfalt til fimmfalt þá upphæð.

Í umsögn um Loga segir að hann hafi tekið miklum framförum og hafi byrjað þetta tímabil af gríðarlegum krafti. Hann spili sem vinstri vængbakvörður í leikaðferðinni 3-4-3 hjá Strömsgodset og sé mjög sóknarsinnaður.

Logi spili stöðuna á mjög einfaldan og árangursríkan hátt, sé með mjög góðan vinstri fót og sé í stóru hlutverki í sóknarleik Strömsgodset.

Hann hafi leikið þrjá landsleiki fyrir Ísland en þeim eigi eftir að fjölga hratt, haldi hann áfram á þessari braut. Með þessu áframhaldi verði hann örugglega undir smásjánni hjá mörgum félögum sem leiti sér að góðum leikmanni í þessa stöðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert