Telur forsendur fyrir vaxtalækkun

Verðbólgan hefur ekki verið lægri síðan í janúar 2022.
Verðbólgan hefur ekki verið lægri síðan í janúar 2022. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Verðbólgumælingin er í takti við það sem við bjuggust við að sjá og vissulega eru þetta góðar fréttir og jákvætt merki.“

Þetta segir Róbert Farestveit, sviðsstjóri á hagfræði- og greiningarsviði Alþýðusambands Íslands, við mbl.is þegar leitað var eftir viðbrögðum hans um hjöðnun verðbólgunnar. Hún hefur lækkað um 0,8 prósentustig og mælist nú 6%. Hefur hún ekki mælst lægri síðan í janúar 2022.

„Það er auðvitað hætta á því að húsnæðismarkaðurinn haldi ákveðnum verðbólguþrýstingi uppi en við sjáum alveg forsendur fyrir verðbólguhjöðnun á næstu misserum. Það er hagur allra að verðbólgan fari niður og það var markmiðið með kjarasamningunum sem voru gerðir í síðasta mánuði,“ segir Róbert en greiningaraðilar hafa verið að spá því að verðbólgan fari niður í 5% í lok ársins.

Merki um að peningastefnan sé að hafa áhrif

Róbert segir teikn á lofti um að peningastefnan sé að hafa áhrif á almenna verðbólguþrýstinginn en að erfiðara sé að segja til um þau atriði sem hafi áhrif á húsnæðisverðið.

Finnst þér að þessi verðbólgumæling kalli á að Seðlabankinn lækki stýrivexti sína?

„Ég tel alveg forsendur fyrir því að vaxtalækkunartímabil fari að hefjast en hvort Seðlabankinn meti þetta merki um að geta farið að lækka vextina mun þurfa að koma í ljós. Seðlabankinn beið síðast með að lækka vextina og það kæmi mér ekkert sérstaklega á óvart að hann bíði eina ákvörðun í viðbót.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka