Bergnuminn í Hvalfirði

Bergur Vilhjálmsson með farg sitt en hann lætur engan bilbug …
Bergur Vilhjálmsson með farg sitt en hann lætur engan bilbug á sér finna á 48 klukkustunda göngu til styrktar Píeta-samtökunum. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta hefur gengið svona upp og niður, þetta er erfitt fyrir taugakerfið og maður fer í gegnum djúpa dali, ég er í einum þeirra núna,“ segir slökkviliðs- og sjúkraflutningamaðurinn, og að auki björgunarkafarinn, Bergur Vilhjálmsson sem nú er um það bil hálfnaður með það 48 klukkustunda eljuverk að ganga eitt hundrað kílómetra með hlass í eftirdragi.

Ganga Bergs er til styrktar Píeta-samtökunum sem veita fyrstu hjálp, aðgengilega þjónustu, stuðning og meðferð fyrir þá sem eru í sjálfsvígshættu og brú í úrræði fyrir aðra, svo vitnað sé beint í heimasíðu samtakanna.

Hóf Bergur göngu sína í gær, sumardaginn fyrsta, frá líkamsræktarstöðinni Ultraform á Akranesi og mun, sem fyrr segir, ganga hundrað kílómetra, að Ultraform-stöðinni í Grafarholti þangað sem hann ætlar sér að koma á morgun, laugardag, klukkan 14:00 eftir 48 klukkustunda göngu.

Fjörutíu kílóum léttari

Bergur er ekki maður einhamur, hefði hugsanlega verið skilgreindur sem berg-risi hefði honum brugðið fyrir á sögutíma Íslendingasagna, og ber hann því ekki bara eigin skrokk á göngunni heldur dregur á eftir sér sleða, eða vagn, á hjólum sem í upphafi göngu vó tvö hundruð kíló að meðtöldum hundrað kílógrömmum af lóðum, en fyrirkomulagið á göngunni er að eftir hverja gengna tíu kílómetra léttir Bergur sleðann um tíu kíló. Og nú er komið að blaðamanni að giska.

Þannig að þú ættir þá að vera búinn að létta um 30 eða 40 kíló núna eftir tæpan sólarhring á göngu?

Og viti menn. „Já, passar, ég er búinn að létta um fjörutíu,“ svarar þessi íslenski Göngu-Hrólfur glaðbeittur. „Þetta kemur allt saman, brekkurnar í Hvalfirðinum eru viðbjóður, en sleðinn er enn á fjórum hjólum og þungur enn þá,“ segir Bergur sem er um það bil hálfnaður með gönguna þegar þetta viðtal á sér stað.

Aðallega hausinn að stoppa mann

Hvernig líst þér þá á sólarhringinn fram undan hjá þér?

„Ja, eins og ég horfi á hann núna er hann svartur en þetta líður hjá eins og allt annað,“ svarar Bergur og játar aðspurður að íslenskir slökkviliðsmenn séu þekktir fyrir að kalla ekki allt ömmu sína þegar kemur að úthaldi sem gjarnan er með því hrikalegra hjá stéttinni. En hjálpar slíkt úthald við að draga þungan sleða um Hvalfjörð?

„Ég myndi segja að við séum að megninu til að þjálfa á okkur hausinn til að takast á við erfiðleika og það er aðallega hausinn sem er að stoppa mann,“ svarar Bergur sem sinnt hefur núverandi starfsgrein í sjö ár, frá árinu 2017.

Auk sleðans sem Bergur dregur ber hann nokkur einkennisorð á vesti sínu sem hann fjarlægir, eitt í einu, með hverjum tíu kílóum sem af sleðanum fara. Má þar meðal annars nefna orðin depurð, kvíði, þunglyndi, áhyggjur, sjálfsvígshugsanir, sektarkennd og áföll – allt táknræn hugtök fyrir þá erfiðleika sem við getum burðast með í gegnum lífið.

Leggja má söfnun Bergs, sem mbl.is mun að sjálfsögðu ræða við aftur á göngu hans, lið með því að greiða inn á eftirfarandi bankareikning:

0301-26-041041

Kennitala: 410416-0690

Færslurnar merkist BV

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert