Isavia hlaut ekki meðbyr í Hæstarétti

ALC og íslenska ríkið voru rétt í þessu sýknuð af …
ALC og íslenska ríkið voru rétt í þessu sýknuð af kröfum Isavia ohf. í máli vegna kyrrsetningar Airbus-flugvélar í kjölfar gjaldþrots WOW air. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Flugvélaleigan ALC og íslenska ríkið voru rétt í þessu sýknuð af kröfum Isavia ohf. í Hæstarétti í máli sem Landsréttur hafði snúið eftir dóm héraðsdóms sem felldi sök á stefndu en Isavia höfðaði málið sem snýr að kyrrsetningu fyrirtækisins á Airbus-þotu gegn skuldum flugfélagsins WOW air.

Kyrrsetti Isavia vélina á sínum tíma þar til ALC greiddi allar skuldir WOW sem námu tveimur milljörðum króna. Neitaði ALC að greiða skuldirnar og taldi sig ekki ábyrgt fyrir þeim. Sýknaði Hæstiréttur ALC og íslenska ríkið í aðalsök.

Isavia hafði á grundvelli þágildandi laga um loftferðir aftrað för farþegaþotu ALC frá Keflavíkurflugvelli vegna gjaldfallinna krafna á hendur WOW air sem var leigutaki þotunnar en bú þess hafði verið tekið til gjaldþrotaskipta.

Höfðaði gagnsök gegn Isavia

Héraðsdómur heimilaði innsetningu í þotuna sem ALC krafðist og var henni í framhaldinu flogið af landi brott. Reisti Isavia bótakröfu á hendur ALC einkum á hlutlægu bótareglunni í lögum um aðför frá 1989 en gagnvart hinum stefnda í málinu, íslenska ríkinu, var byggt á sakarreglunni, eða almennu skaðabótareglunni eins og hún kallast einnig.

Auk þessa höfðaði ALC svokallaða gagnsök gegn Isavia og byggði á því að sú háttsemi Isavia að hindra brottför Airbus-vélarinnar frá Keflavíkurflugvelli hefði verið ólögmæt og saknæm.

Er að því kom að meta hvort umdeild aðfarargerð fengi staðist taldi Hæstiréttur að ríkulegar kröfur yrðu gerðar til lagaheimildar sem fæli í sér greiðsluþvingun, einkum við þær aðstæður þar sem kröfur beindust að eiganda loftfars sem ekki hefði átt í kröfuréttarsambandi við rekstraraðila flugvallar.

Isavia var sýknað af kröfu ALC um tvær greiðslur en að öðu leyti var kröfum  ALC vísað frá héraðsdómi við meðferð málsins þar. Var Isavia að lokum dæmt til að greiða ALC samtals þrjár milljónir króna vegna reksturs málsins á öllum dómstigum. Að lokum var Isavia gert að greiða ALC eina milljón króna í málskostnað fyrir Hæstarétti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert