Lesblinda eða lestrarerfiðleikar sem hægt er að bæta með þjálfun

Börn þurfa að fá verkefni við hæfi hvers og eins …
Börn þurfa að fá verkefni við hæfi hvers og eins til að auðvelda lestrarnámið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikið verk þarf að vinna til þess að bæta lestrarkunnáttu hér á landi. Til þess þarf markvissar aðgerðir þar sem hver og einn fær verkefni og hvatningu við hæfi, skrifa Hermundur Sigmundsson og Svava Hjaltalín. Skilaboðin verði að vera skýr, að allir geti bætt sig.

Áskorun:

Alþjóðleg viðmið segja um það bil 7% einstaklinga greinist með lesblindu (dyslexíu). Hér á landi eru þessar tölur oft sagðar nálægt 20% eða 13% hærri. Þessi munur getur tæpast verið á rökum reistur og skýrist án efa af því að sérhæfða þjálfun vantar. Þá er átt við þá þjálfun sem á að hafa farið fram á heimilum eða í skólunum. Skilaboðin verða að vera skýr, allir geta bætt sig. PISA 2022 niðurstöður sýna okkur að 40% 15 ára unglinga (ca. 1400 unglingar).

ná ekki grunnfærni í lesskilningi, eru undir þrepi 2. Þarna er því um 33% einstaklinga að ræða sem hafa ekki hlotið viðunandi sérhæfða þjálfun. 13% miðað við lesblindu hugtakið og 33% miðað við þau sem ná ekki grunnfærni, þrepi 2, í PISA. Hér er um gríðarlega háar tölur að ræða og því vert að staldra við og fara ofan í kjölinn á þeim. Það er einfaldlega svo að þeir einstaklingar sem ekki fá stuðning heima verða að fá öflugan og markvissan stuðning í skólanum. Kennarar gegna lykilhlutverki og búa verður svo um hnútana að stuðningur sé vís og þeim gert kleift að sinna hlutverki sínu. Þegar niðurstaðan er þessi þá má halda því fram að skólarnir sinni ekki því mikilvæga hlutverki sínu að stuðla að jöfnuði í þjóðfélaginu. Barn sem stendur svo höllum fæti að geta ekki lesið sér til gagns eftir tíu ár í grunnskóla hefur ekki sömu möguleika og aðrir. Lestrarfærni hefur áhrif á möguleika og lífsgæði. 

Hvað hafa vísindin fram að færa hvað þetta varðar? 

Heikki Lyytinen, hinn framúrskarandi finnski prófessor hefur sagt að allir nái að brjóta lestrarkóðann (ná að lesa orð, skilja að Í og S er ÍS eða að H - Ú - S er HÚS) meðal annars með smáforritinu Grapho game, sem er notað víða um heim og er nú verið að þýða yfir á íslensku. Þarna er um algjöra grunnfærni að ræða.  Það finnast yfir 20 vísindagreinar um íhlutun (e. intervention) þar sem forritið hefur verið prófað með góðum árangri.
John Stein prófessor í Oxford er einn af þeim stóru og samkvæmt honum eru það 2-4% einstaklinga sem glíma við lífeðlisfræðilegan vanda sem tengist lestri. Þá er átt við vanda sem tengist sjónskyni (e. ‘visual processing deficits’) sem tengist ‘magnocells’ sem flytja hraðar upplýsingar frá sjónhimnu til sjónsvæði heilans. Þeir einstaklingar sem ekki glíma við þennan vanda eiga að geta náð læsi með
 markvissri þjálfun. Þessir lífeðlisfræðilegu erfiðleikar geta tengst þróun á þessum taugafrumum í fósturlífi sem tengist þá genum sem sagt erfðafræðilegum þáttum. Ef þessir þættir eru erfðatengdir eru áskoranir tengdar þjálfun stærri, það er erfiðara að ná árangri sem kallar þá á enn frekari þjálfun. Rannsóknir Stein og rannsóknarhóps undirritaðs prófessors í Þrándheimi (Learning and skill development) sýna að þeir einstaklingar sem eiga í  vanda vegna stórfrumulagsins (magnocellular layer) rugla til dæmis saman líkum bókstöfum eins og b/d;  a/e,  l/í og m/n eða tölustöfunum 9/6, 2/3 og 3/8. Oft upplifa þessir einstaklingar að bókstafirnir og tölustafirnir renni saman. Ofangreint benti ameríski læknirinn Samuel Orton á árið 1925 þegar hann talaði um „orðblindu“. Í norska tækni- og vísindaháskólanum (NTNU.no) hefur undirritaður prófessor þróað smáforrit (Magno app) til að finna þá sem eiga í vanda með að vinna úr því sem fyrir augu ber (sjónræna úrvinnslu eða visual processing) tengdan stórfrumulaginu. Notkun þessa forrits hefur komið vel út og styður kenningu John Steins. Mismunur þeirra sem eiga við stórfrumulagsvanda að stríða miðað við samanburðarhóp í lestrarprófi er skýr.

Hermundur Sigmundsson er prófessor við Háskóla Íslands og Norska tækni- …
Hermundur Sigmundsson er prófessor við Háskóla Íslands og Norska tækni- og vísindaháskólann. mbl.is/Kristinn Magnússon

Prófessorarnir Elena L. Grigorenko og Julian G. Elliott hafa í sinni  vísindagrein velt því fyrir sér hvort rétt er að nota lesblindu/dyslexíu hugtakið í svona miklum mæli. Þau eru á því að einblína í staðinn á hugtakið lestrarerfiðleika og styðjast þá við útgangspunkt úr kenningum í taugavísindum (e. network theories). Greina á erfiðleika sem einstaklingur hefur, er hann tengdur orðaforða, kunnáttu á bókstöfum og hljóðum þeirra, því að lesa texta eða því að skrifa orð/texta. Þegar greining liggi fyrir þarf að þjálfa þá þætti sem viðkomandi er í erfiðleikum með. Þess vegna eru mælingar á árangri mjög mikilvægar allt frá upphafi lestrarnáms og þá áskoranir miðað við færni hvers nemanda. Einstaklingsmiðun í lestrarnámi verður að vera mikil svo hverju barni verði lyft.

Taugafræðilegar kenningar eins og kenning Gerald Edelman um taugafræðilegan Darwinisma (neural Darwinism) segja að öll færni- og þekkingarþróun þarfnist mikillar sérhæfðar þjálfunar til að þróast og verða góð. Með sérhæfðri þjálfun styrkjast þau tauganet sem eru notuð: ‘use it and improve it’. Þannig að til að þróa lestrarfærni þarf mikla þjálfun til að geta náð umskráningu, mikla þjálfun til að efla orðaforða og lesskilning og mikla þjálfun til að verða fær í skapandi skrifum. Þjálfun styrkir þau tauganet sem eru notuð. Að brjóta lestrarkóðann að geta umskráð hljóð í orð er einn af grunnþáttum læsis. Þá þarf að fylgja því eftir að börn kunni alla bókstafina bæði heiti og hljóð, það er ekkert sem getur heitið að formlegri bókstafakennslu sé lokið fyrr en hvert barn hefur náð hverju tákni og hljóði. Síðan tekur við þjálfun og meiri þjálfun sem byggist á lestri alls kyns texta, bóka, skrif, ritun og framsögn. Þá koma árangursmælingar sterkar inn til að leiðbeina kennara að leggja línur við kennslu og þjálfun.

Rannsóknir sýna hið augljósa að því fleiri bækur sem  lesnar eru því betri verður lesskilningur, orðaforðinn eykst. Hann er mjög mikilvægt að þjálfa frá fæðingu barns, gegnum allan leik- grunn- og framhaldsskóla sem og út allt lífið. Því meira sem við tölum við börnin því betri orðaforða öðlast þau. Því þurfa foreldrar og forráðamenn  að taka alvarlega. Það sem gerir kenningu Edelmans svo frábæra er að hún styður góða þjálfun. Hver hefur ekki heyrt að æfingin skapar meistarinn og reynt það á eigin skinni.

Möguleikar:

Tökum alvarlega það sem Stein hefur bent á að 2-4% eigi við lífeðisfræðilega erfiðleika að etja sem valda lestrarerfiðleikum. Árangur Heikki Lyytinen með ´grapho game´ eða vangaveltur Elena Gregarenko og Julian G. Elliott. Einblínum á mögulega íhlutun þegar við greinum erfiðleika hjá barni. Höfum það hugfast að við erum að tala um 2-4% sem hafa mjög líklega lífeðlisfræðileg vandamál (tengd erfðum) sem tengjast því að læra að lesa. Þau getum við fundið með smáforritinu ‘Magno app’. Þá eru það þau 4-5% sem gæti átt við annan vanda að stríða, gætu átt erfiðara með einbeitingu og þá þrautseigju sem þarf til að geta unnið markvisst með þjálfun á mikilvægum þáttum læsis: orðaforða, bókstaf-hljóða kunnáttu, lestri bóka og lestri texta, og að skrifa. Mikilvægt er að mæta þessum einstaklingum á þeirra forsendum, til dæmis með því að breyta skipulagi skóladags, auka hreyfingu og efla möguleika á vali ‘ástríðutíma.’ Að ráðast í ofangreint þarf ekki að kosta neitt en mikið getur áunnist. Rannsóknir sýna að einstaklingar með ADHD eru oft frábærir frumkvöðlar (Johan Wiklund). Þegar þeir vinna með áhugatengd verkefni eru þeir 100% með. Förum varlega með lyfjagjöf fyrir þessa einstaklinga og munum að rannsóknir sýna að börn fædd seint á árinu fá oftar greiningu með ADHD. Það er staðreynd sem svo sannarlega þarf að flíka og skoða mjög vel. Getur hún tengst því að kröfur til þessara barna eru of miklar í upphafi.

Svava Þ. Hjaltalín er sérkennari, læsisfræðingur og verkefnastjóri rannsóknasetursins Menntunar …
Svava Þ. Hjaltalín er sérkennari, læsisfræðingur og verkefnastjóri rannsóknasetursins Menntunar og hugarfars við Háskóla Íslands.

Að nota taugafræðilegar námskenningar þýðir að sérhæfð þjálfun fer fram á því sem stöðumat sýnir að er ábótavant. Þær leiða okkur að því hvernig við getum stuðlað að þjálfun sem vinnur á þeim áskorunum sem barn glímir við? Forðumst ekki slíkar kenningar, þær segja okkur að allir geta bætt sig með markvissri þjálfun og eftirfylgni. Hér á landi má stokka spilin og breyta áherslum, við þurfum að ná betri árangri og við megum ekki bregðast börnunum okkar. Eflum þjálfun og þar með árangur og mannauð, allt fyrir þau og framtíð þeirra.

Hermundur er prófessor við Háskóla Íslands og Norska tækni- og vísindaháskólann og Svava er sérkennari, læsisfræðingur og verkefnastjóri rannsóknasetursins Menntunar og hugarfars við HÍ.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert