Instagram mun brengla nektarmyndir

Instagram vonast til að með þessu verði erfiðara fyrir afbrotamenn …
Instagram vonast til að með þessu verði erfiðara fyrir afbrotamenn að hafa samband við ungmenni. AFP/Lionel Bonaventure

Instagram hyggst innleiða breytingar í forritinu sínu til að vernda ungmenni og koma í veg fyrir að fólk geti kúgað aðra með því að dreifa nektarmyndum.

Ein af breytingunum er stilling sem felur í sér að nektarmyndir sem sendar eru í einkaskilaboðum verða brenglaðar (e. blur). 

Instagram segir að verið sé að prufukeyra breytingarnar en Meta, móðurfyrirtæki Instagram, bindur vonir við það að með þessum breytingum verði meðal annars erfiðara fyrir afbrotamenn að hafa samband við ungmenni.

Meta á einnig Facebook og WhatsApp en mun ekki innleiða þessar stillingar á þeim forritum.

ABC greinir frá.

Stillingin sjálfkrafa innleidd hjá börnum

Ásamt því að brengla nektarmyndir þá mun notandinn, sem hyggst senda frá sér nektarmynd, fá viðvörun frá Instagram áður en hann sendir nektarmynd, þar sem hann er hvattur til að hugsa sig tvisvar um áður en hann lætur vaða.

Instagram segir að afbrotamenn biðji oft um kynferðislegar myndir í gegnum skilaboð á forritinu.

Notendur yngri en 18 ára munu sjálfkrafa fá þessa stillingu innleidda en notendur eldri en 18 ára munu fá tilkynningu þar sem þeir eru hvattir til að virkja þessa stillingu.

Myndirnar verða brenglaðar en notandinn getur svipt hulunni af myndinni ef hann langar að skoða hana í fullri upplausn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert