Vonast til að tjaldbúðir við HÍ standi áfram

Kjartan Sveinn Guðmundsson, skipuleggjandi tjaldbúðanna við HÍ
Kjartan Sveinn Guðmundsson, skipuleggjandi tjaldbúðanna við HÍ Samsett mynd/Facebook

Háskólaneminn Kjartan Sveinn Guðmundsson skipulagði tjaldbúðirnar við Háskóla Íslands sem lögreglan hafði afskipti af í nótt og í morgun.

Kjartan segir hugmyndina að baki aðgerðunum hafa verið framkvæmda skjótt eftir að fréttir bárust af sambærilegum aðgerðum bandarískra háskólanema.

Aðgerðir háskólanema í Bandaríkjunum innblásturinn

Ég las mér til um stúdentahreyfingar víðsvegar um heiminn sem eru að slá upp tjaldbúðum, til að sýna samstöðu með Palestínu og setja þrýsting á ríkisstjórnina og fá háskólana sem þau stunda nám við til þess að slíta samskiptum við menntastofnanir í Ísrael.“

Kjartan Sveinn bætir við:

„Það var bongó blíða á sumardaginn fyrsta. Ég ákvað að slá tvær flugur í einu höggi, ákvað að tjalda og gera það jafnframt á háskólasvæðinu. Þá gæti ég sýnt smá stuðning á meðan.“

Hann segir engin samtök standa að baki aðgerðinni heldur hafi verið búinn til viðburður á Facebook og upplýsingum um hann hafi svo verið dreift áfram á spjallsvæðum nemendafélaga HÍ. Hann telur um tuttugu hafa verið á viðburðinum í gær, þótt ekki hafi allir þeirra gist.

Var ekki leyft að gista 

Kjartan segir lögregluna hafa haft afskipti af hópnum um þrjúleytið í nótt og þeim tjáð að þau mættu ekki gista þar í nótt. Hafi viðstaddir virt þau tilmæli lögreglu og fært sig á annan stað en mætt aftur snemma morguns.  

„Ég fann það á samskiptum við lögreglu að við hefðum átt að fara í þessa aðgerð með leyfi. Við sóttum um leyfi hjá Reykjavíkurborg þar sem við töldum þetta vera borgarland, sem reyndist svo ekki vera.“

Fjarlægðu sjálf fánann af Sæmundi

Kjartan segir líka að mótmælendur hefðu sjálfir fjarlægt fána Palestínu af höfði styttunnar af Sæmundi fróða, eftir að lögregla hafi bent að sú aðgerð bryti gegn lögreglusamþykkt.

Hann segir stóra hvíta tjaldið sem slegið var upp hafa verið hið sama og áður hefur verið notað til mótmæla á Austurvelli. „Við höfum eins fengið boð um að fá lánað fleiri tæki og tól til að halda tjaldbúðunum úti, þótt við höfum ekki enn haft tækifæri til að stilla þeim búnaði upp.“

Vilja leita lausna með háskólarektor

Kjartan sagðist vera á leið til fundar við háskólarektor til að finna ásættanlega lausn fyrir alla aðila.

„Ég er allur af vilja gerður til að ná ásættanlegri niðurstöðu fyrir alla en vil jafnframt ekki lúffa, enda eru fæst mótmæli algerlega þannig. Ég ætla að leyfa mér að vona að það náist lausn sem virkar fyrir alla.“

Heyra má á tali hans að mótmælin hafi verið skipulögð með litlum fyrirvara og ekki náðst að hugsa út í öll atriði máls.

„Mótmælin eru mögulega pínu kjánaleg hjá okkur en við erum öll af vilja gerð. En við vorum með mikinn vilja til aðgerða og vonumst til að vel verði tekið í það bæði af lögreglu og stjórn HÍ.“

Kjartan mælir með tjaldvist á prófatíma

Kjartan er að síðustu spurður að því hversu bjartsýnn hann sé á þátttöku stúdenta í mótmælum framundan, þar sem flestir séu á kafi í próflestri og verkefnaskilum.

„Það er margt sem mælir með tjaldvistinni, sjálfur er ég úr Kópavogi, og það er miklu betra fyrir mig að tjalda við Hí á meðan ég er að lesa fyrir próf, þá er bæði styttra í þjóðarbókhlöðuna og stúdentakjallarann. Það er fyrirtakshugmynd að hafa tjaldað, óháð mótmælunum sjálfum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert