„Ekki gengið á þeim hraða eins og við ætluðum“

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra.
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Óttar

Þó umsóknum venesúelskra hælisleitenda virðist hafa fækkað um 80% á milli ára gengur brottflutningur þeirra frá Íslandi ekki eins hratt fyrir sig og ríkisstjórnin hafði ætlað. Þetta koma fram í máli Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra á Alþingi í dag.

Fyrsti dagskrárliður þingsins í dag var óundirbúinn fyrirspurnatími. Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, spurði út í sjálfviljuga brottför þeirra venesúelskra ríkisborgara sem hafa fengið synjun um alþjóðlega vernd (með vísan í úrskurð kærunefndar útlendingamála sem féll í lok september 2023).

„Hæstvirtur ráðherra sagði í viðtali [í kjölfar úrskurðar kærunefndarinnar] að um 1500 manns frá Venesúela þyrftu að yfirgefa landið hið fyrsta. Þann 15. nóvember 2023 flaug leiguflug til Karakas með 180 ríkisborgara frá Venesúela og þá höfðu samanlagt 315 yfirgefið landið á þeim tímapunkti,“ segir hann.

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins.
Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er sjálfviljug brottför“

Stefnt var að öðru leiguflug til Karakas í janúar. Þegar Bergþór spurði um flugið svaraði Guðrún m.a.:

„Það [brottflutningurinn] hefur ekki gengið á þeim hraða eins og við ætluðum. Það var minn vilji að það færi annað flug í desember, sem varð ekki niðurstaðan, og við erum að horfa til þess að geta tryggt fólki flutning. Og þá vil ég árétta að þetta er sjálfviljug brottför þessarar ríkisborgara.“

Bergþór spurði þá hvað olli því að svo illa gengi að þeir færu til síns heima.

Guðrún svaraði: „Við erum hér með stóran hóp fólks sem kýs sjálfir á brottför og þau eru að fara. Þau eru þá að fara ekki í beinu flugi til Karakas heldur í gegnum aðrar leiðir eins og t.d. Madrid og það sem er.“

„80% fækkun umsókna“

Guðrún tók fram að breytingar á útlendingalöggjöf á síðasta ári hefðu skilað árangri.

„Ég get líka nefnt hér að við erum að sjá núna það sem af er þessu ári um 80% fækkun umsókna ríkisborgara frá Venesúela en allt árið í fyrra voru þeir 1556. En það sem er komið núna, það sem af er þessu ári, eru 110 umsóknir. Það þýðir að þær verða þá 318 á þessu ári. Þá eru það um 80% fækkun á milli ára en það er brýnt að tryggja farsæla heimför.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert