„Ég var feiminn gagnvart þessu fyrst“

Baldur Þórhallsson mættur í Hörpu til að skila inn framboði …
Baldur Þórhallsson mættur í Hörpu til að skila inn framboði sínu til embættis forseta. Með honum í för var eiginmaður hans Felix Bergsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Baldur Þórhallsson segir tilfinninguna hálf óraunverulega að skila inn undirskriftalista til Landskjörsstjórnar. Hann kveðst fyrst hafa verið feiminn þegar hann var hvattur til að bjóða sig fram til forseta, en að nú sé tilfinningin góð. 

„Hún er svona hálfóraunveruleg verð ég að viðurkenna. Maður hefur ekki séð sjálfan sig í þessu hlutverki. En þetta var í rauninni bara hátíðleg stund þar sem vel var tekið á móti okkur í Hörpu. Það er gaman að sjá þessa góðu umgjörð sem er í kringum þetta og við fengum leiðbeiningar síðan í framhaldinu. Þannig að bara einstaklega góð,“ segir Baldur. 

„Ég var feiminn gagnvart þessu fyrst til að byrja með þegar var leitað til okkar í upphafi árs. En við höfum ákveðið að láta slag standa til að hjálpa til við góð málefni og veita ríkisstjórn hvers tíma ákveðið aðhald,“ segir Baldur. 

Finnur fyrir vaxandi meðbyr

Baldur mælist ýmist efstur eða næst efstur í fylgiskönnunum. Spurður hvort hann telji að hann muni hljóta kjör kveðst hann finna fyrir vaxandi meðbyr.

„Við erum mjög bjartsýnir, auðvitað kannanir bara mæling á hverjum tímapunkti. Við erum búnir að ferðast um meginþorra Suðurlands, allt Austurland og Norðurland og við finnum fyrir miklum og vaxandi meðbyr,“ segir Baldur. 

Baldur og eiginmaður hans, Felix Bergsson, hafa heimsótt fjölda staða á ferð sinni um landi og segist Baldur orðlaus yfir móttökunum. Þá opnaði hann kosningamiðstöð sína og 700 manns mættu. 

En hvernig forseti verður Baldur?

„Forseti sem horfir yfir öxlina á þingheimi til þess að tryggja að þingið fari ekki fram úr sér. Grípur í neyðarhemilinn, málskotsréttinni, ef þess er þörf ef þingið ætlar fram úr sér. en vinnur líka sérstaklega að góðum þverpólitískum málum eins og til dæmis að láta þann draum okkar verða að veruleika að við stöndum fremst meðal þjóða þegar kemur að málefnum barna og ungmenna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert