Nautalifur leynivopn Sigurjóns

Sigurjón og Andrea áttu gott hlaup í dag og höfnuðu …
Sigurjón og Andrea áttu gott hlaup í dag og höfnuðu í fjórða og sjöunda sæti, hann sigurvegari íslenskra karla og hún íslenskra kvenna. Ljósmynd/Aðsend

„Haupasumarið hefur verið býsna þétt, ég hef tekið þátt í mörgum ultra-hlaupum hérna heima, utan vegar,“ segir Sigurjón Ernir Sturluson í samtali við mbl.is, sigurvegari íslenskra karlmanna í Reykjavíkurmaraþoninu og handhafi fjórða heildarsætis á eftir þeim Silviu Stoica, Ernest Kibet Tarus og Bart Geldof frá Rúmeníu, Kenýa og Belgíu.

Hlaupin sem Sigurjón nefnir hafa heldur betur leikið í höndum hans – eða kannski öllu heldur fótum – þar sem hann fór með sigur af hólmi í Hengilshlaupinu Hengill Ultra, sem er 53 kílómetrar, Esjumaraþoninu, sem endaði í 43 kílómetrum með 3.600 metra hækkun, átti mjög gott hlaup í Laugavegshlaupinu og fór með sigur af hólmi í hinu 50 kílómetra langa Dyrfjallahlaupi. Og þetta eru bara stærri hlaup Sigurjóns í sumar.

Röðuðu sér í sætin

Tími hans í fjórða sætinu í dag var 2:38:25 og hljóp Sigurjón í hópi þriggja hlaupavina, þeirra Andreu Kolbeinsdóttur, sem varð fyrst íslenskra kvenna í mark og lenti í sjöunda heildarsæti á tímanum 2:42:15, Grétars Arnar Guðmundssonar og Jörundar Frímanns Jónassonar. Var það eins og við manninn mælt að vinirnir röðuðu sér í 4., 5., 6. og 7. sæti Reykjavíkurmaraþonsins er upp var staðið. Andrea ræddi við mbl.is fyrr í dag.

„Þetta var sjöunda eða áttunda maraþonið mitt, ég þori ekki alveg að fara með það,“ segir Sigurjón aðspurður og játar á sig eitt maraþonhlaup erlendis, Þriggja landa maraþonið svokallaða þar sem hlaupið er um Þýskaland, Austurríki og Sviss.

Sigurjón, sem nýlega fagnaði 33 ára afmæli sínu, hóf ferilinn árið 2011 þegar hann hljóp Laugaveginn fyrst – þennan milli Landmannalauga og Þórsmerkur það er að segja – og ætlaði að því loknu ekki að hafa hlaupaferilinn lengri. „Það fór svolítið illa með mig sko,“ segir hann glettnislega.

Vinirnir fjórir hafa marga fjöruna sopið á hlaupabrautinni og röðuðu …
Vinirnir fjórir hafa marga fjöruna sopið á hlaupabrautinni og röðuðu sér í fjórða til sjöunda sætið í dag. Ljósmynd/Aðsend

Ferillinn tók þó skyndilegan kipp, „svo fór maður í fimm og tíu og hálft og heilt og svo utan vegar og nú hef ég mest hlaupið 160 kílómetra hlaup með hátt í tíu þúsund kílómetra hækkun“, segir Sigurjón sem sannarlega lifir og hrærist í hreyfingu, hefur hana meira að segja að atvinnu.

Hreyfing ofar öllu

„Ég er mikið í styrktarþjálfun líka, ég er með Ultraform sem er með tvær hóptímastöðvar og við erum með hlaupafjarþjálfun og lífstílssþjálfun og fleira, ég pæli mjög mikið í næringu og hreyfingu heilt yfir. Ég hleyp þrisvar-fjórum sinnum í viku og er fimm-sex sinnum í styrktarþjálfun og svo er ég oft að hjóla með og gera hitt og þetta,“ lýsir Sigurjón lífi sem er hreinlega gegnsýrt af hreyfingu.

Gat hann því leyft sér að búa sig ekkert sérstaklega undir maraþonið sérstaklega, nokkuð sem líklega er fáheyrð saga fólks sem hafnar í fjórða sæti í fjölmennu maraþonhlaupi. „Ég keppti það mikið að ég var bara til í slaginn,“ segir Sigurjón sem bætti sitt persónulega met um hvorki meira né minna en átta mínútur í dag.

Þar til í dag hefur Sigurjón verið annar Íslendingurinn í mark á eftir Arnari Péturssyni en í dag kvað við nýjan tón þar er hann varð landsmanna fyrstur að marklínunni. „Ég horfi alltaf bara á Íslendingana þegar ég horfi á úrslitin, ég man ekki alveg hve margir útlendingar hafa verið á undan mér þessi skipti, en þetta er minn besti árangur og þetta ár hefur verið mikið bætingaár hjá mér,“ segir Sigurjón og ljóstrar upp því sem ef til vill er lykillinn að þessu farsæla ári hans.

„Ég er mikið í styrktarþjálfun líka, ég er með Ultraform …
„Ég er mikið í styrktarþjálfun líka, ég er með Ultraform sem er með tvær hóptímastöðvar og við erum með hlaupafjarþjálfun og lífstílssþjálfun og fleira, ég pæli mjög mikið í næringu og hreyfingu heilt yfir.“ Ljósmynd/Aðsend

Samdi við sláturhús

„Ég byrjaði að borða nautalifur svolítið grimmt fyrir tveimur mánuðum eða svo og það virðist vera að gera mikið fyrir mig. Ég hef verið lágur í járni og þetta var greinilega það sem mig vantaði sérstaklega,“ segir Sigurjón af fæðuvenjum sínum en lifur úr nauti er ekki eitthvað sem maður kaupir í kjötborði næstu matvöruverslunar, öðru nær.

„Ég samdi við sláturhúsið á Hellu og fékk slatta af fimm hundruð gramma pakkningum, við seljum þetta í Ultraform, erum með þetta í frysti þar og svo er ég kominn í samstarf við Nettó og hef fengið þetta inn í fjórar verslanir þar. Við ætlum að sjá hvernig hreyfingin er á þessu og taka svo ákvörðun um hvort þeir verði áfram með þetta eða ekki,“ segir Sigurjón frá svo þar er að minnsta kosti komin ein matvöruverslun sem býður þessa ofurfæðu hlauparans.

Segir Sigurjón hið besta mál að steikja lifrina í smjöri á pönnu og borða eins og hverja aðra kjötmáltíð en sjálfur borði hann þetta líffæri nautgripsins hrátt. „Ég borða þá tuttugu-þrjátíu grömm, þú mátt eiginlega ekki borða meira en það, þetta er svo rosalega næringarríkt, mjög hátt í A- og D-vítamíni og járni, þannig að þú getur „óverdósað“ á henni,“ segir Sigurjón af fæðuvenjum sínum. „Ég tek þrjá fjóra munnbita á hverjum degi, þetta er bara eins og fjölvítamín,“ bætir hann við af lifrinni góðu.

Lykillinn að svakalegu sumri hjá Sigurjóni, lifur úr nauti sem …
Lykillinn að svakalegu sumri hjá Sigurjóni, lifur úr nauti sem sláturhúsið á Hellu gaukar að honum. Ljósmynd/Aðsend

Segir hann þessa breytingu á mataræði sínu hafa gert ótrúlega mikið fyrir líkamlegt atgervi sitt og bendir á staðreynd úr ríki náttúrunnar máli sínu til stuðnings: „Þetta er það sem öll dýr leita í eftir að þau drepa bráð sína, þau byrja á lifrinni.“ Þarf frekari vitnanna við?

Róðurinn þyngdist í 36

Hann segir þau fjórmenningana í hlaupinu hafa haldið hópinn algjörlega að þrjátíu kílómetrum, þeim fræga þröskuldi margs maraþonhlauparans. „Þá dettur fyrst Jörundur aðeins aftur úr og svo Andrea í svona 31 en við Grétar fylgdumst að alveg í mark, hann var meira að segja kominn einhverjum 300 metrum á undan mér í svona 40 kílómetrum. Svo hægist aðeins á honum og ég dett í gírinn og fer fram úr honum, þurfti að pressa ansi vel til að ná sigrinum heim,“ segir Sigurjón frá.

Hann segir róðurinn hafa tekið að þyngjast verulega að um það bil 36 eða 37 kílómetrum hlaupnum. „Svo sló það mig svolítið þungt í 39 og Grétar líklega í um það bil 40, en flestir lenda fyrr á veggnum, yfirleitt er fólk að lenda á honum í svona 30 til 32 kílómetrum. Mig hefði kannski vantað aðeins meiri drykk eða næringu en þú getur ekki verið að þyngja þig of mikið með því að bera mikið, maður fékk kannski 100 millilítra ofan í sig með því að þamba glas á drykkjarstöðvunum en í raun væri betra fyrirkomulag ef einhver á drykkjarstöð gæti bara rétt manni brúsa,“ segir Sigurjón Ernir Sturluson, sigurvegari Íslendinga í Reykjavíkurmaraþoninu og klykkir út með þeim orðum að hlaupið hefði bara endað býsna vel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert