Spá þurru og hlýju veðri um helgina

Hitaspáin á landinu síðdegis á laugardag.
Hitaspáin á landinu síðdegis á laugardag. Kort/Veðurstofa Íslands

Hlýtt verður í veðri og jafnframt lítill vindur á nær öllu landinu á laugardaginn. Má búast við rólegu veðri og að hitinn fari upp í sextán gráður á höfuðborgarsvæðinu þegar að best lætur. Viðrar því einkar vel til hlaups í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka og fyrir Menningarnótt sem fer fram á laugardaginn.

Þetta segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur í samtali við mbl.is.

„Það er spáð þurru og hlýju veðri um eiginlega allt land á laugardaginn. Það er austanátt sem er hagfellt upp á hita fyrir vesturhluta landsins. Það er spáð þokusamt á austfjörðum en annars er bjart og hlýtt veður. Það er enn klárlega sumar á landinu,“ segir Einar.

Úrkoman nær ekki til landsins

Spurður hvar verði best að vera um helgina segir Einar að það verði í raun gott veður á öllu landinu þó að það verði smá strekkingur meðfram suðurströndinni. „Það verður einhver rigning og þokusuddi á austfjörðum bara út af vindáttinni.“

Á mánudaginn var spáð þó nokkurri úrkomu á föstudaginn en Einar bendir á að nú virðist sem svo að úrkoman nái ekki til landsins og verði sunnar yfir Atlantshafi. Má því búast við nokkuð þurru veðri til vikuloka. 

„Það er ekki að breytast í það að rakinn sunnan úr Atlantshafi, sem nóg er af, nái hingað til lands. Nema lítill angi í nótt og á morgun. Maður hefur séð þetta oft í spánum að langtímaspárnar gera ráð fyrir vætu en síðan er eins og landið verði teflonhúðað og hrindi þessu frá sér.“

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert