Valur dæmdur í 7 ára fangelsi

Valur Lýðsson við upphaf aðalmeðferðar málsins á Selfossi.
Valur Lýðsson við upphaf aðalmeðferðar málsins á Selfossi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Valur Lýðsson hefur verið dæmdur til sjö ára fangelsisvistar fyrir að verða bróður sínum Ragnari að bana á heimili Vals að Gýgjarhóli II í Bláskógabyggð, en dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Suðurlands á Selfossi rétt í þessu.

Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari fór fram á að Valur yrði dæmdur í 16 ára fangelsi, en dómari varð ekki við þeirri kröfu. Valur var sakfelldur fyrir manndráp af gáleysi og varðar brot hans við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.

„Það er sú niðurstaða sem við fórum fram á, til vara, að þetta væri slys og væri af gáleysi, þar sem það var enginn vilji til staðar til verknaðar. Umbjóðandi minn hélt því allan tímann fram og er auðvitað sáttur við þá niðurstöðu,“ segir Ólafur Björnsson verjandi Vals í samtali við mbl.is.

Ólafur segir dóminn „í þyngri kantinum“ miðað við að dæmt sé fyrir manndráp af gáleysi og að ekki sé ljóst hvort umbjóðandi hans muni sæta dóminum eða áfrýja honum. Það verði skoðað.

„Nú mun ákæruvaldið væntanlega fara yfir dóminn með hliðsjón af því hvort honum verði áfrýjað,“ segir Grímur Hergeirsson, sem var viðstaddur dómsuppsögu fyrir hönd ákæruvaldsins. Hann segir of snemmt að segja til um hvort svo verði.

Valur greiðir fjórum börnum Ragnars þrjár milljónir hverju um sig í miskabætur og er auk þess gert að greiða tveimur þeirra útlagðan útfararkostnað. Þá greiðir Valur allan sakarkostnað í málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert