Fjölskylduharmleikur lagður í dóm

Bræðurnir Valur, Ragnar og Örn fæddust allir og ólust upp …
Bræðurnir Valur, Ragnar og Örn fæddust allir og ólust upp á bænum Gýgjarhóli II í Biskupstungum. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Því hefur verið haldið fram að þetta kvöld hafi tveir menn dáið,“ var á meðal þess sem Ólafur Björnsson, verjandi Vals Lýðssonar, sagði í lokaorðum sínum fyrir Héraðsdómi Suðurlands í dag. Mál Vals, sem vart verður betur lýst en sem fjölskylduharmleik, hefur nú verið lagt í dóm Hjartar O. Aðalsteinssonar dómstjóra á Suðurlandi að lokinni aðalmeðferð.

Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari fer fram á það fyrir hönd ákæruvaldsins að Valur verði dæmdur í sextán ára fangelsi fyrir manndráp. Valur, sem er 68 ára gamall, hefur neitað sök í málinu og borið við minnisleysi um atburðina voveiflegu sem áttu sér stað aðfaranótt 31. mars síðastliðins.

Sigurður Kári Kristjánsson, réttargæslumaður fjögurra barna hins látna, fer fram á það fyrir þeirra hönd að þeim verði dæmdar tíu milljónir króna í miskabætur, hverju um sig. Er Sigurður Kári lýsti kröfugerðum skjólstæðinga sinna fyrir dómi í dag sagði hann meðal annars að gjörðir Vals hefðu splundrað fjölskyldu sem áður var samheldin og samstiga og að barnabörn Ragnars hefðu verið svipt samvistum við afa sinn.

Réttargæslumaðurinn sagði einnig að þar sem Valur neitaði sök, krefðist sýknu og frávísunar eða verulegrar lækkunar bótakrafna væri miski barna Ragnars gerður enn meiri.

Mögulega með ofskynjanir af einhverju tagi

Verjandi Vals lýsti málinu sem fjölskylduharmleik í sínum lokaorðum. Harmleik þar sem Bakkus hefði átt stærstan þátt í að svo fór sem fór.

Sakborningurinn sjálfur lýsti því fyrir dómi í síðustu viku að hann myndi eftir „illilegu andliti“, sem hann upplifði stundum sem andlit Ragnars og stundum sem andlit einhver annars. Lét Ólafur að því liggja að þarna hefði Valur mögulega verið að upplifa ofskynjanir eða brenglun af einhverju tagi, sem gæti útskýrt þá ofbeldishegðun sem ætla má út frá gögnum málsins að hann hafi sýnt í garð bróður síns.

Hann gæti jafnvel, að sögn verjandans, hafa talið sig vera að verjast innbrotsþjófi.

Ólafur Björnsson verjandi og Valur Lýðsson, sem gæti séð fram …
Ólafur Björnsson verjandi og Valur Lýðsson, sem gæti séð fram á allt að 16 ára fangelsi, verði hann sakfelldur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í samtali við Neyðarlínuna að morgni 31. mars virtist Valur hafa munað meira um málið en hann síðar náði að kalla fram í skýrslutökum frá lögreglu fyrir dómi, en saksóknari las upp úr neyðarlínusímtalinu í dag.

Í því símtali lýsti Valur málavöxtum sem svo að þeir bræður hefðu verið á fylleríi og að hann ræki minni til þess að bróðir hans hefði verið „orðinn brjálaður“, jafnvel „alveg furðulega brjálaður“, og það hefði endað með handalögmálum þeirra á milli.

„Mér er sagt að það sé þekkt í rétt­ar­sál­fræðinni að mjög hrika­leg­ar minn­ing­ar geti þurrk­ast út,“ sagði Val­ur er hann gaf skýrslu fyrir dómi í síðustu viku, en þá sagði hann einnig að hann hefði íhugað að stytta sér aldur er hann fann bróður sinn látinn á grúfu í þvottahúsinu og allar aðstæður bentu til þess að það væri hann sem hefði framið verknaðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert