Björgunarsveitir í startholunum

Björgunarsveitir eru tilbúnar en spáin fyrir kvöldið er ekki góð.
Björgunarsveitir eru tilbúnar en spáin fyrir kvöldið er ekki góð. mbl.is/Hari

Aðgerðastjórnun hefur verið virkjuð á höfuðborgarsvæðinu ef lögregla og björgunarsveitir þurfa að grípa til aðgerða í óveðrinu í kvöld. Björgunarsveitir hafa þegar þurft að sinna einu útkalli í höfuðborginni í dag.

Auk þess hafa björgunarsveitir varann á fyrir austan Hellisheiði, þar sem færðin virðist spillast hratt. „Fyrstu hópar frá okkur mættu um þrjúleytið á lokunarpósta í Þrengslum Hveragerði og við Rauðavatn. Þeir leiðbeina þar fólki á litlum bílum,“ segir Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar.

Verkefnið í Reykjavík sneri að því að losa þurfti sex bíla sem höfðu fest sig rétt við Úlfarsfell. „Það er búið að virkja aðgerðastjórnun í höfuðborginni þannig að fólk frá okkur og lögreglunni er tilbúið ef veðrið verður eins og því var spáð,“ segir Davíð.

Samkvæmt veðurspám verður vindstyrkur mestur á suðvesturhluta landsins frá 19.00 og fram á nótt. Gert er ráð fyrir aust­an 15-23 m/​s og því að vind­hviðum fari upp í 35 m/​s á Kjal­ar­nesi, und­ir Hafn­ar­fjalli og und­ir Eyja­fjöll­um, einkum frá kl. 19.00 til kl. 02.00. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert