0% samningar hefðu afgerandi áhrif

Tækist vinnumarkaðnum að semja um 0% launahækkun til næstu 12 mánaða gæti það haft afgerandi áhrif á þróun efnahagsmála í landinu. Þetta er mat Jóns Bjarka Bentssonar, aðalhagfræðings Íslandsbanka.

„Ég held að það hlyti að hafa allnokkur og eiginlega talsvert mikil áhrif. Við sáum þetta auðvitað gerast í þjóðarsáttinni frægu í upphafi 10. áratugar og það kom svolítið til, ekki af góðu, að það var orðið ástand sem var ekki lengur við unað. Rekstrargrundvöllur fyrirtækja var orðinn mjög erifður og það skildu allir að það hafði ekki orðið nein kaupmáttaraukning hjá launþegum og svo framvegis. Viljinn var mjög gagnkvæmur þá,“ útskýrir Jón Bjarki í viðtali í Dagmálum.

Gerir ráð fyrir 6,5% hækkun launa

Íslandsbanki kynnti á miðvikudag nýja þjóðhagsspá fram til ársins 2027. Þar gerir bankinn raunar ráð fyrir að laun muni hækka um 6,5% á þessu ári. Ummæli hans falla hins vegar í kjölfar þess að hann var spurður út í þá hugmynd sem Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins varpaði fram í þættinum Spursmálum á mbl.is í lok síðustu viku þar sem hann sagðist reiðubúinn að bjóða 0% launahækkun næstu 12 mánuði gegn því að allir opinberir aðilar og aðildarfyrirtæki SA myndu draga til baka gjaldskrár- og verðhækkanir frá nýliðnum áramótum.

Jón Bjarki segir að stemningin í umræðum um kjaramál sé að einhverju leyti að breytast þessa dagana.

„Menn hafa haft af því áhyggjur að flestir vildu að „hinir“ myndu taka á sig þessar byrðar. En ég tek undir það með þér að það eru meiri teikn á lofti, maður heyrir það úr fleiri áttum að það sé vilji til að vera með í þessu átaki og passa upp á að verða ekki einhvern veginn sá sem hleypir þessu í háa loft. Athyglisverð þessi ummæli Vilhjálms og við skulum sjá hverju fram vindur í þessari umræðu. Hann er búinn að kasta þessari hugmynd þarna út og er svolítið að skora á opinberu aðilana og fyrirtækin auðvitað, smásölufyrirtækin og aðra að leggjast á þessa ár.“

Þjóðarsáttin 1990 er gjarnan nefnd í opinberri umræðu þegar víðtækrar …
Þjóðarsáttin 1990 er gjarnan nefnd í opinberri umræðu þegar víðtækrar sáttar á vinnumarkaði er leitað. Á þessari mynd takast þeir Ásmundur Stefánsson, forseti ASÍ og Einar Oddur Kristjánsson formaður VSÍ í hendur að lokinni undirskrift samninganna. Á milli þeirra situr Haukur Halldórsson formaður Stéttarsambands bænda.

Bendir Jón Bjarki á að jafnvel þótt þessi útfærsla Vilhjálms verði ekki endilega að veruleika þá bendi hún og viðbrögðin sem hún hefur fengið til þess að fólkið í landinu, innan fyrirtækja og stéttarfélaga vilji taka stöðugleika og lægra og fyrirsjáanlegra vaxtastig fram yfir persónulega skammtímahagsmuni.

Sannkölluð himnasending

Jón Bjarki bendir á að ný verðbólgumæling fyrir janúarmánuð komi eins og himnasending inn í þessar aðstæður, ekki síst nú þegar Seðlabankinn býr sig undir að tilkynna stýrivexti fram til 20. mars næstkomandi. Peningastefnunefnd kemur saman í byrjun næstu viku og kynnnir ákvörðun sína á miðvikudag.

„Þess vegna var þessi óvænta mæling okkur svo dýrmæt. Á þessum krítíska punkti þegar það er kominn sandur í tannhjólið á kjaraviðræðum og rétt að styttast í vaxtaákvörðun. Við vitum að vaxtahækkun myndi hleypa illu blóði í þessar kjaraviðræður og ýta eiginlega undir einhverskonar vítahring eða þróun þar sem hvert ýtir á annað. Þetta getur þvert á móti verið í hina áttina.“

Bendir Jón Bjarki á að mælingar Hagstofunnar séu lýsing á orðnum hlut, þ.e. hvað veðrlagsþróun varðar en að úr tölunum megi hins vegar lesa jákvæð teikn.

„[...] Þarna getur orðið til jákvæður spírall, og við sáum á skuldabréfamarkaði eftir birtinguna að álag á markaði lækkaði umtalsvert. Það lækkaði um þetta 0,15 til 0,20 prósentur sem gleður seðlabankafólk þegar þau fara að rýna í verðbólguvæntingar fyrir sína vaxtaákvörðun og minni líkur á vaxtahækkun. Það þýðir minni líkur á að það hleypi illu blóði í verkalýðshreyfinguna því þau hafa lýst því yfir að það sé faktor þó að þau eigi ekki að hafa áhrif á Seðlabankann og hann er sjálfstæður. Þetta getur vonandi orðið svona snjóbolti næstu vikur og mánuði,“ útskýrir Jón Bjarki.

Viðtalið við Jón Bjarka má sjá og heyra í heild sinni hér:

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK