Grindavíkurbær fækkar starfsfólki

Grindavíkurbær mun fækka starfsfólki vegna gjörbreyttra aðstæðna.
Grindavíkurbær mun fækka starfsfólki vegna gjörbreyttra aðstæðna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bæjarstjórn Grindavíkur hefur ákveðið að laga starfsmannahald bæjarins að gjörbreyttum aðstæðum og fækka störfum hjá sveitarfélaginu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Grindavíkurbæ.

Var bæjarstjóra falið að hefja undirbúning og samráð við hagaðila í samræmi við lög um hópuppsagnir.

„Á undanförnum sex mánuðum hafa forsendur fyrir rekstri sveitarfélagsins gjörbreyst,“ segir svo í tilkynningunni. „Stór hluti Grindvíkinga hefur búið sér nýtt heimili í öðrum sveitarfélögum, sumir tímabundið en aðrir varanlega. Frekari íbúafækkun blasir við með tilheyrandi tekjufalli fyrir bæjarsjóð þar sem bæði útsvarstekjur og fasteignaskattar lækka verulega, m.a. vegna laga um kaup á íbúðahúsnæði í Grindavík.“

Launakostnaður um helmingur tekna

Segir svo að launagreiðslur séu langstærsti útgjaldaliður sveitarfélagsins og láti nærri að launakostnaður sé um helmingur tekna bæjarins. Sé það mat bæjarstjórnar að í ljósi aðstæðna sé bæjarfélaginu nauðugur einn kostur að gera grundvallarbreytingar á rekstrinum, lækka kostnað og laga starfsmannahald að nýjum veruleika. Þar með sé óumflýjanlegt að fækka starfsfólki, leggja niður störf og grípa til fleiri aðgerða.

Aðstæðurnar losi bæjaryfirvöld þó ekki undan þeirri skyldu að veita fólki með lögheimili í bænum þjónustu, en ljóst megi vera að umfang þjónustunnar ráðist af aðstæðum á hverjum tíma, mannlífi í bænum, getu sveitarfélagsins og samstarfi við önnur sveitarfélög.

„Ákvörðun um fækkun starfa er bæjarstjórn Grindavíkurbæjar afar þungbær, en bæjarfulltrúar eru einhuga um nauðsyn hennar. Aðgerðirnar verða sársaukafullar fyrir starfsfólk, fjölskyldur þeirra og aðra íbúa Grindavíkur, en eru forsenda þess að sveitarfélagið geti snúið vörn í sókn þegar aðstæður breytast. Bæjarstjórn er sannfærð um að með tímanum muni samfélag og mannlíf blómstra í Grindavík á ný,“ segir enn fremur í fréttatilkynningu Grindavíkurbæjar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert