c

Pistlar:

5. maí 2024 kl. 18:09

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

14 ára bið Verkamannaflokksins að ljúka

Flest bendir til þess að breski Verkamannaflokkurinn vinni kosningarnar í Bretlandi þegar þær verða haldnar en það getur í síðasta lagi orðið í janúar á næsta ári. Í nýafstöðnum sveitastjórnarkosningum vann Verkamannaflokkurinn mikinn sigur. Flokkurinn bætti við sig 180 sætum og vann meirihluta í mörgum kjördæmum. Á sama tíma galt Íhaldsflokkurinn afhroð í kosningunum og tapaði ríflega 470 sveitarstjórnarsætum, rétt undir helmingi þeirra sem þeir höfðu.labor

Eðlilega fylgjumst við Íslendingar vel með breskum stjórnmálum. Bretland er eitt af okkar næstu nágrönnum, viðskipti landanna hafa alla tíð verið mikil og Ísland var um aldaskeið á bresku áhrifasvæði, þrátt fyrir dönsk yfirráð. Ísland naut fyrr á öldum óbeinnar verndar breska flotans á stríðstímum og þó að Bretar séu eina þjóðin sem hefur hernumið Ísland sáu flestir að það var betri kostur en að Hitler legði Ísland undir sig þó efast megi um að það hafi yfirhöfuð verið líklegt. En Íslendingar og Bretar hafa þó líka eldað grátt silfur saman, ekki síst í þorskastríðunum á síðustu öld. Þeim átökum lauk með friðsamlegu samkomulagi, þar sem hagsmunir Íslands voru tryggðir. Í bankakreppunni kastaðist aftur í kekki milli þjóðanna og hryðjuverkalög Breta svíða enn á Íslandi.

Úr stjórnmálasögunni þekkjum við ekkert annað en baráttuna á milli Íhaldsflokksins og Verkamannaflokksins en Verkamannaflokkurinn (Labour Party) eins og hann er í dag hefur þróast yfir langan tíma, eða allt síðan í janúar 1924 þegar hann var stofnaður. Nýlega kom út bókin The Wild Men eftir blaðamanninn David Torrance sem fjallar um sögu Verkamannaflokksins og hvernig honum hefur vegnað við stjórnvölin.ramsey

Að vera stjórntækur

Í bók sinni rekur Torrance hvernig Verkamannaflokkurinn kom raski á breskt þjóðlíf við stofnun en áhöld voru um hve stjórntækur hann var á sama tíma og flokkurinn, eins og aðrir vinstri flokkar, varð að skilgreina sig út frá öfgavinstrinu eins og það mátti finna í sósíalistahreyfingum þess tíma en rætur flokksins náðu til sósíalistanna sem stóðu að Fabian Society. Fyrsta ríkisstjórn Verkamannaflokksins, sem sést hér á mynd, undir stjórn Ramsey MacDonalds (1866-1937), entist aðeins níu mánuði en náði þó að hreyfa við ýmsum velferðarmálum og umbótum á sviði menntunar og heilbrigðismála. Mestu skipti þó að stjórn MacDonalds tókst að sýna að hún væri stjórntæk, þvert á það sem íhaldsmenn höfðu haldið fram. Það hafði meðal annars þær afleiðingar að Frjálslyndi flokkurinn hrundi í kosningunum á eftir og hefur ekki borið sitt bar síðan. Í Bretlandi hefur síðust öld ríkt tveggja flokka kerfi þar sem Íhaldsflokkurinn og Verkamannaflokkurinn skiptast á að fara með völdin. Eftir 14 ár utan stjórnar bendir flest til þess að nú sé komið að Verkamannaflokknum.

Miklu skipti einnig að Verkamannaflokkurinn sýndi að honum var treystandi fyrir fjármálum og skellti ekki á stjórnlausum skattahækkunum og einnig hefur flokkurinn reynt að sýna ábyrgð og oft haldið niðri útgjöldum hins opinbera þrátt fyrir gremju einstakra flokksmanna. Markmiðið er að styðja við gengi breska pundsins. Philip Snowden, fyrsti fjármálaráðherra Verkamannaflokksins, reyndist þannig nokkuð traustur segir Torrance.

Ábyrg utanríkisstefna og kalda stríðið

Einnig reyndi Verkamannaflokkurinn að sýna ábyrga utanríkisstefnu og MacDonalds lagði mikið á sig að reyna að jafna ágreining í alþjóðastjórnmálum á millistríðsárunum. Hann stýrði tveimur alþjóðlegum ráðstefnum og gekk eiginlega fram af sjálfum sér enda gegndi hann störfum utanríkisráðherra meðfram forsætisráðherrastarfinu. Seinni tíma leiðtogar Verkamannaflokksins hafa fylgt í fótspor hans og Clement Attlee kom að stofnun Nató 1949. Harold Wilson dró breska hermenn heim frá Suez árið 1968 og Tony Blair, sem var leiðtogi flokksins frá 1994 til 2007, gerði sig mjög gildandi á hinu alþjóðlega sviði þó margt af því sem hann gerði hafi verið umdeilt síðar.

Kaldastríðið lék bresk stjórnmál grátt eins og annars staðar. Þannig lá Harold Wilson þrisvar sinnum undir grun sinnar eigin leyniþjónustu á árunum 1963 til 1974 um að vera „undir stjórn Sovétmanna". Það var landflótta Rússi, sem gaf fyrstur í skyn, að Wilson væri handbendi Kremlverja og lét leyniþjónustan, MI5, þá rannsaka feril hans. Var fylgst með Wilson um skeið á sama tíma og hann var forsætisráðherra. Engar sannanir komu nokkru sinni fram gegn honum en blaðið The Observer skýrði frá þessu 1984.corbin

Stjórntækir en um leið svikarar

En það að vera stjórntækur hefur afleiðingar fyrir marga forystumenn vinstrimanna, bæði í Bretlandi og á Íslandi. Þannig hafa margir leiðtogar Verkamannaflokksins fengið þau eftirmæli að vera svikarar við málstaðinn. Líklega þekkja VG liðar og Katrín Jakobsdóttir vel þann málflutning. Þannig var MacDonalds hvað eftir annað sakaður um að hafa svikið sósíalíska stefnu flokksins og stimplaður svikari fyrir að hafa myndað þjóðstjórn með Íhaldsflokknum á þriðja áratugnum (1931-1935). Wilson var einnig sakaður um að vera laus í hinni hugmyndafræðilegu rás. Sir Tony Blair er einfaldlega hataður af mörgum fyrri flokksbræðrum og sem telja hann hafa svikið allt sem Verkamannaflokkurinn stendur fyrir. Það er aðeins minning Attlee sem stendur traustum fótum í flokknum.

Sir Keir Starmer er líklegur til að verða næsti forsætisráðherra Breta og hann hefur lagt sig eftir að hreinsa í burtu margt af þeirri öfgavinstri stefnu sem Jeramy Corbyn studdi og gallt fyrir með að vera vikið tímabundið úr flokknum fyrir. Starmer hefur til dæmis tekið hart á gyðingahatri sem grasseraði í flokknum á tíma Corbyn og kom honum að lokum frá. Starmer ætti líklega að lesa bók Torrance til að undirbúa sig undir eftirmælin. Niðurstaða Torrance er nefnilega sú að gjald vinstrimanna fyrir að vera stjórntækir er að vera álitnir svikarar.