Apríl stærri en í fyrra

Flugvél Icelandair.
Flugvél Icelandair. mbl.is/Árni Sæberg

Fraktflutningar og fjöldi farþega í innanlandsflugi jukust verulega á milli ára í apríl samkvæmt mánaðarlegum flutningatölum sem Icelandair Group birti í Kauphöll í dag. Í tilkynningu frá félaginu segir þó að líkt og undanfarið ár endurspeglast farþegatölur Icelandair Group í apríl af stöðu COVID-19 faraldursins og þeim ferðatakmörkunum sem enn eru í gildi á landamærunum.

Heildarfjöldi farþega í millilandaflugi hjá Icelandair var um 8.900 í apríl samanborið við um 1.700 í apríl í fyrra en sá mánuður var fyrsti heili mánuðurinn þar sem áhrifa faraldursins gætti.

Fjöldi farþega til landsins í apríl þessa árs var um 5.500, fjöldi farþega frá Íslandi var um 3.100 og fjöldi farþega í innanlandsflugi var um 11.800. Þá var sætanýting félagsins í apríl þessa árs um 33% samanborið við 13% í apríl á síðasta ári.

Seldir blokktímar í leiguflugstarfsemi félagsins jukust um 82% á milli ára í mars. Þá jukust fraktflutningar félagsins um 50% á milli ára í aprílmánuði og nemur aukningin um 19% á milli ára það sem af er ári.

Finna fyrir áhuga ferðamanna

„Við erum við bjartsýn á að geta aukið flugið jafnt og þétt á komandi mánuðum samhliða því sem bólusetningum miðar áfram og létt verður á ferðatakmörkunum fyrir bólusetta ferðamenn. Þá hefur fjöldi farþega í innanlandsflugi aukist sem helst í hendur við batnandi stöðu faraldursins og afléttingu samkomutakmarkana hér á landi. Við höfum jafnframt náð góðum árangri í fraktflutningum. Við finnum fyrir miklum áhuga erlendra ferðamanna á Íslandi, sérstaklega frá Bandaríkjunum og þar hafa söluherferðir okkar gengið vel. Við bindum jafnframt vonir við að Evrópa muni taka við sér fljótlega með sama hætti,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK