Tekjuhæsti fyrsti ársfjórðungur í sögu Icelandair

Flotaendurnýjun og aukin skilvirkni í rekstri höfðu áhrif til lækkunar …
Flotaendurnýjun og aukin skilvirkni í rekstri höfðu áhrif til lækkunar á einingakostnaði Icelandair. mbl.is/Hörður Sveinsson

Heildartekjur Icelandair jukust um 11% á milli ára og námu 35,8 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi 2024. Það gerir ársfjórðunginn tekjuhæsta fyrsta ársfjórðung í sögu félagsins.

Tap félagsins nam þó 7,8 milljörðum króna á sama tímabili.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í uppgjöri fyrirtækisins sem var birt í Kauphöll rétt í þessu.

Þar kemur einnig fram að fyrirtækið hafði metfarþegatekjur fyrstu 3 mánuði ársins sem námu samtals 27,5 milljörðum króna og er það aukning um 17% milli ára. Þá lækkaði einingakostnaður um 5% og kemur fram að flotaendurnýjun og aukin skilvirkni í rekstri hafi haft áhrif til lækkunar á einingakostnaði.

Afkoma fyrsta ársfjórðungs var í takt við væntingar fyrirtækisins en áhrif alþjóðlegrar umfjöllunar um eldgos á Reykjanesskaga lituðu rekstrarniðurstöðuna í janúar, að því er haft er eftir Boga Nils Bogasyni forstjóra Icelandair í tilkynningunni.

Farþegafjölgun og góð afkoma í leiguflugi

Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair segir fyrirtækið á réttri leið …
Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair segir fyrirtækið á réttri leið til að ná langtímamarkmiðum sínum. mbl.is/Árni Sæberg

Farþegum Icelandair fjölgaði um 14% og voru þeir samtals 757 þúsund. Þar af voru farþegar til Íslands 284 þúsund. Framboð í farþegaleiðakerfinu jókst um 21%.

„Leiguflugið skilaði áfram góðri afkomu en sú starfsemi skilar mikilvægum tekjum og arðsemi inn í félagið og dregur úr áhrifum árstíðasveiflu með bættri nýtingu flota og áhafna allan ársins hring,“ er haft eftir Boga Nils.

Í tilkynningunni kemur einnig fram að mikill viðsnúningur hafi orðið í fraktstarfsemi, eða sem nam 535 milljónum króna.

Áhersla á skilvirkni og lægri kostnað

 „Árið 2023 lauk endurreisn Icelandair eftir heimsfaraldurinn og reksturinn skilaði hagnaði á ný. Nú í ár er áhersla okkar fyrst og fremst á aðgerðir til að ná fram aukinni skilvirkni í rekstrinum, lækka kostnað og styrkja tekjumyndun enn frekar,“ er haft eftir Boga.

„Við höfum þegar gripið til fjölmargra aðgerða, til dæmis einfaldað skipulag félagsins og fækkað stjórnendum og útvistað starfsemi flugeldhússins í Keflavík sem er eitt stærsta framleiðslueldhús landsins, með um 200 stöðugildi. Þá er vinna hafin að fjölmörgum öðrum verkefnum til að auka skilvirkni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka