Landsbankinn skilar 7,2 milljarða hagnaði

Lilja Björk Einarsdóttir er bankastjóri Landsbankans.
Lilja Björk Einarsdóttir er bankastjóri Landsbankans. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hagnaður Landsbankans á fyrstu þremur mánuðum ársins nam 7,2 milljörðum, en á sama tíma í fyrra var hagnaðurinn 7,8 milljarðar. Nemur arðsemi eiginfjár núna 9,3%, en var á sama tíma í fyrra 11,1%. Bankastjóri segir þetta nálægt langtímamarkmið um arðsemi. Hún segir nýlega breytingu Seðlabankans kosta Landsbankann einn milljarð árlega.

Hreinar rekstrartekjur bankans hækkuðu örlítið á milli ára og námu 17,6 milljörðum á fyrstu þremur mánuðum þessa árs, en voru í fyrra 17,3 milljarðar. Þar af voru hreinar vaxtatekjur, þ.e. vaxtatekjur að frádregnum vaxtagjöldum, 14,4 milljarðar og hækkuðu um 1,3 milljarða á milli ára.

Neikvæð virðisbreyting upp á 2,7 milljarða

Virðisbreyting var neikvæð um 2,7 milljarða, en var á sama tíma í fyrra neikvæð um 2,1 milljarð. Rekstrargjöld bankans hækka úr 7 milljörðum í 7,4 milljarða á milli ára.

Í tilkynningu með uppgjörinu er haft eftir Lilju Björk Einarsdóttur bankastjóra að sá merki áfangi hafi náðst á tímabilinu að efnahagsreikningur bankans sé kominn yfir 2.000 milljarða. Það sé tvöföldun frá stofnefnahagsreikningi bankans eftir fjármálahrunið árið 2008. Stækkaði efnahagsreikningurinn um 72 milljarða á fyrsta ársfjórðungi í ár.

Aukið varúðarframlag vegna Grindavíkur

„Á þessu ári hefur verið lítil aukning í íbúðalánum en meira um endurfjármögnun. Fyrirtækjalán jukust jafnt og þétt og alls nam aukning þeirra á fjórðungnum um 30 milljörðum króna,“ er haft eftir Lilju.

Um arðsemina segir Lilja: „Arðsemi bankans gefur eilítið eftir en er nálægt langtímamarkmiði. Helsta ástæðan fyrir lægri arðsemi er sú að bankinn eykur varúðarframlag á fjórðungnum vegna náttúruvárinnar í Grindavík. Það er mikilvægt að bankinn hafi efnahagslegan styrk til að takast á við afleiðingar náttúruhamfaranna og geti áfram stutt við viðskiptavini sína í Grindavík, líkt og hingað til. Við búumst við að heildararðsemin á þessu ári rétti sig af og verði yfir markmiði bankans.“

Þá bendir Lilja einnig á að nýjar kröfur Seðlabanka Íslands um bindiskyldu hafi orðið til þess að Landsbankinn mun eiga um 35 milljarða á vaxtalausum reikningi hjá Seðlabankanum, en það er 50% aukning frá fyrri kröfu. „Kostnaðaraukinn er einn milljarður á ári fyrir bankann,“ segir Lilja.

Uppfært: Landsbankinn sendi frá sér leiðréttingu vegna uppgjörsins. Þar kemur fram að breytingar á bindiskyldu hafi leitt til þess að bankinn eigi um 35 milljarða á vaxtalausum reikningi hjá Seðlabankanum, en ekki 40 milljarða eins og kom fram í upphaflegri uppgjörstilkynningu. Jafnframt að aukningin milli ára nemi 50% en ekki 20% eins og upphaflega kom fram. Kostnaðaraukinn er þó áfram einn milljarður árlega. Hefur fréttin verið uppfærð samkvæmt þessu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK