Afkoma borgarinnar 13 milljörðum undir áætlun

Einar Þorsteinsson borgarstjóri.
Einar Þorsteinsson borgarstjóri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tap varð á rekstri Reykjavíkurborgar (A- og B-hluta) í fyrra upp á 3,4 milljarða, en áætlanir höfðu gert ráð fyrir 9,6 milljarða afgangi. Niðurstaðan er því tæplega 13 milljörðum lakari en áætlað hafði verið. Árið 2022 hafði verið jákvæð rekstrarniðurstaða upp á 6 milljarða á rekstrinum. Borgarstjóri segir ánægjulegt að áætlanir við að ná niður hallarekstri séu að skila árangri.

Þegar á fyrri hluta síðasta árs var ljóst að rekstrarniðurstaðan var orðin mun lakari en áætlanir gerðu ráð fyrir. Var rekstrarniðurstaða fyrri hluta ársins orðin tæplega 13 milljörðum lakari en áætlun gerði ráð fyrir. Var tap A- og B-hluta á miðju ári 6,7 milljarðar, en áætlað hafði verið að afgangur væri 6 milljarðar.

Fjármagnsgjöld 10,3 milljörðum yfir áætlun

Tap varð á rekstri borgarsjóðs (A-hluta) upp á tæplega 5 milljarða í fyrra og var þar frávik upp á 0,4 milljarða frá áætlun. Engu að síður var afkoma A-hlutans nokkuð betri en í fyrra þegar tapið var 15,6 milljarðar. Þetta er meðal þess sem lesa má úr ársreikningi borgarinnar sem lagður var fyrir borgarráð í dag.

Í tilkynningu frá borginni kemur fram að rekstrarniðurstaðan fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) hafi verið 47,6 milljarðar og hækkaði um 10,2 milljarða milli ára. Helsta ástæðan fyrir verri afkomu en áætlað hafði verið er sögð vera fjármagnsliðir, en fjármagnsgjöld voru 10,3 milljörðum yfir áætlun. Helgast það af hærri vöxtum, verðbótum og gengi sem þróaðist með öðrum hætti en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun. Birtist það einkum í reikningum Orkuveitu Reykjavíkur, sem er dótturfélag borgarinnar og hluti af B-hluta borgarinnar. Gjaldfærsla lífeyrisskuldbindinga var einnig hærri en áætlað var.

Matsbreyting Félagsbústaða undir áætlun

Þá var matsbreyting fjárfestingaeigna Félagsbústaða undir því sem áætlað var, en það helgast af því að hægt hefur á hækkun fasteignaverðs saman borið við síðustu ár. Matsbreytingar Félagsbústaða hafa undanfarin ár nokkuð verið í umræðunni, en minnihlutinn í borginni hefur gagnrýn að jákvæð afkoma af matsbreytingu hafi verið notuð til að sýna fram á betri rekstrarniðurstöðu en minnihlutinn taldi efni til.

Skólamáltíðir og vetrarþjónustu kostuðu aukalega 2 milljarða

Í skýrslu fjármála- og áhættustýringar borgarinnar kemur meðal annars fram að liðurinn „annar rekstrarkostnaður“ hafi numið samtals 66,4 milljörðum á síðasta ári og farið 4,9 milljarða umfram fjárheimildir. Helstu frávikin þar er meðal annars að finna í rekstrarkostnaði á skóla- og frístundasviði þar sem hráefniskostnaður mötuneyta fór einn milljarð fram yfir fjárheimildir.

Þá voru útgjöld vegna vistgreiðslna vegna barna með þroska- og geðraskanir 714 milljónum yfir fjárheimildum og kostnaður vegna þjónustu við flóttafólk og hælisleitendur umtalsvert yfir áætlun. Hins vegar koma tekjur frá ríkinu á móti þeim kostnaði að mestu. Þá var kostnaður vegna vetrarþjónustu tæpum milljarði yfir áætlun vegna snjóþyngsla síðasta vetur.

Lán aukast um 23 milljarða

Veltufé frá rekstri hjá A- og B-hluta nam 35,7 milljörðum um áramót og hækkaði um 9,3 milljarða milli ára. Fjárfestingar að frádregnum seldum eignum námu 58,1 milljarði. og jukust um 8 milljarða á milli ára. Lántaka þar með talin ný stofnframlög umfram afborganir langtímalána nam 22,9 milljörðum á síðasta ári. Handbært fé í lok árs var 27,1 milljarður.

Heildareignir A-hluta í efnahagsreikningi námu samtals 279,7 milljörðum, en heildarskuldir og skuldbindingar 198,5 milljörðum. Eigið fé var því 81,3 milljarðar og lækkaði um 1,4 milljarða á milli ára. Eiginfjárhlutfall A-hluta nam 29% og lækkaði úr 32% frá árinu á undan. Skuldaviðmið A-hluta í árslok var 82%.

Í tilkynningu frá borginni er haft eftir Einari Þorsteinssyni borgarstjóra að hann telji ánægjulegt að áætlanir borgarinnar og aðgerðir við að ná niður hallarekstri séu að skila sér. Með samstilltu átaki hefur okkur tekist á einu ári að fara úr ríflega 15 milljarða halla niður í 5 milljarða og stefnum á að skila afgangi. Það er tíu milljarða jákvæður viðsnúningur og milljarði betur en upphafleg fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir,” er haft eftir Einari.

Uppfært: Bætt hefur verið við ummælum borgarstjóra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert