c

Pistlar:

2. maí 2024 kl. 20:39

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Gist og snætt í Porto

Undanfarin ár hefur Porto verið vinsæll áfangastaður Íslendinga en þangað er um fjögurra tíma flug og borgin falleg og áhugaverð. Ekki of stór sem sumum kann að þykja þægilegt en íbúafjöldi Porto er um 250 þúsund manns en Stór-Porto svæðið telur vera um eina milljón. Rétt eins og á við um höfuðborgarsvæðið hér á Íslandi þá verða mörk millii sveitarfélaga óljós og fyrir aðkomumenn þá rennur þetta allt saman í eina stóra borg. Helgina fyrir 1. maí voru tvö leiguflug til Porto auk áætlunarferðar hjá Play. Það mátti því alveg heyra íslensku á götum borgarinnar síðustu daga.porto

Þegar við vorum á ferðinni í Porto síðastliðið sumar var okkur tjáð að veðrið væri best í mars, apríl og maí og því tilvalið að láta reyna á það. Porto er ekki með dæmigert veðurfar Íberíu-skagans enda er þar úrkomusamara og svalara vegna nálægðarinnar við Atlantshafið. Það má þó hafa væntingar um 20 stiga hita þegar komið er fram í apríl þó það sé ekki öruggt. Skúrir gera vart við sig en standa ekki lengi.

Við ferðuðumst með Úrval Útsýn að þessu sinni og ákváðum að taka þátt í Borgarlottói sem ég hef verið heldur skeptískur á til þessa. Það reyndist ekki koma að sök, fengum ágæta gistingu á Tryp Porto Centro sem er miðlungsstórt þriggja stjörnu hótel, staðsett við Rua da Alegria. Það reyndist snyrtilegt og bjóða upp á góða þjónustu og ágætan morgunverð. Það var í 10 mínútna göngufjarlægð frá efsta hluta Rua de Santa Catarina, helstu göngu- og verslanagötu Porto. Við gistum þarna ekki langt frá í síðustu Porto-ferð og teljum okkur þekkja umhverfið þokkalega vel.

Breyttur borgarbragur

Það er reyndar svo að þegar komið er út fyrir miðbæjarhverfi borga eins og Porto er eins og borgarbragurinn breytist. Eitt af því sem er áhugavert við það er að reyna matsölustaði í nágrenninu og gerðum við það svikalaust. Komum vanalega inn á hótelið um kvöldmatarleytið eftir skoðunarferðir dagsins og eftir stutta hvíld þá létum við reyna á veitingastaðina í nágrenninu.

Það hefur marga kosti að borða á stöðunum sem heimamenn sækja. Í fyrsta lagi er verðlag allt annað en í miðborginni, góð máltíð fyrir tvo með ágætu Duero-víni fæst á innan við 50 evrur eða 7.500 krónur. Þjónustan og maturinn eru mjög ásættanleg þó að hægt sé að vera misheppnin með réttina. Það getur verið gott að dreifa áhættunni og panta rétti til að deila. Við upplifðum undantekningalaust góða þjónustu og það er gaman að sitja innan um heimamenn og finna aðra stemmningu en miðbærinn býður upp á, eins ágætur og hann er.solar

Fyrsta kvöldið fórum við ekki langt. Í 50 metra fjarlægð frá hótelinu var Solar da Alegria veitingastaðurinn við Rua da Alegria. Praktískur og snyrtilegur staður og eigandinn stjanaði við okkur, ég fékk mér saltfisk í lauksósu á 15 evrur sem bragðaðist mjög vel. Þegar ég spurði vertinn hvort saltfiskurinn væri frá Íslandi sagði hann „auðvitað“, en reynslan er að veitingamenn þarna gera ekki mikinn mun á íslenskum eða norskum saltfiski.

Annað kvöldið snæddum við á Estrela do Lima, einnig við Rua da Alegria. Það er dýrari staður en kvöldið á undan og var fullsetin þegar við komum en salur í kjallaranum til að taka við yfirflæðinu. Okkur var sagt á hótelinu að við þyrftum ekki að panta fyrirfram á þessum stöðum en þá getur maður þurft að sætta sig við að bíða eða setjast niðri eins og við gerðum í þetta sinn. Við fengum okkur önd sem er reyndar hinn þekkti réttur Arroz de Pato (hrísgrjónaönd) sem rekur sig 500 ár aftur í tímann til þess þegar Portúgal var undir íslömskum yfirráðum (til 1249) en þá varð til matarmenning hrísgrjónaræktunar í landinu. Fyrir utan öndina og hrísgrjónin, sem mynda grunninn í þessari matarmiklu máltíð, telst rétturinn ekki fullkominn án áleggs af chorizo-osti. Rétturinn var eiginlega meiri sagnfræði en matarupplifun en gaman að prófa hann.nando

Þriðja kvöldið snæddum við á veitingastaðnum Casa Nanda eða húsi Nanda! Hann var við Rua da Alegria eins og hinir staðirnir og þangað var innan við 10 mínútna ganga frá hótelinu. Það var mikið að gera enda portúgölsk stórfjölskylda mætt til að borða. Þar var reyndar bara einn karlmaður með stúlkum og konum. Hann sat vitaskuld fyrir enda langborðsins! Okkur bauðst borð nálægt dyrunum. Það kom sér vel því fljótt varð heitt inni. Við fengum okkur steikur og þarna varð reikningurinn hærri enda pöntuðum við Bons Ares 2017 Duero-rauðvín á 27 evrur!Cidtadeporto

Grill og fótbolti

Síðasta kvöldið borðuðum við á Churrasqueira Cidade við Rua de Costa Cabral eða í um 15 mínútna göngufjarlægð frá hótelinu. Um er að ræða grillstað sem býður einnig upp á heimsendingu en þegar inn er komið blasir við stórt grill og fólk á þönum. Setið er á tveimur hæðum og við settumst inn niðri þar sem sumir heimamenn voru búnir að koma sér vel fyrir og horfðu á heimaliðið spila á meðan þeir snæddu. Við létum það ekki trufla okkur og pöntuðum steik fyrir tvo sem vel hefði dugað fyrir fjóra. Skemmst er frá því að segja að hún bragðaðist afskaplega vel í hvítlaukslegi með kartöflum. Gott Duero vín frá Papa Figos fyrir 14 evrur spillti ekki fyrir og reikningurinn í heildina 45 evrur. Þarna sem fyrr var þjónustan afbragðsgóð.

Hádegisstaðir

Eins og gengur settumst við stundum niður um miðjan daginn og þá gat verið erfiðara að finna stað, ekki of dýran en þó með einhver sérkenni. Það er reyndar ágæt regla að fá sér sardínurétti í Portúgal, þeir veiða mikið af henni og þeir leggja metnað sinn í þá. Þegar sólin skín vilja margir fara niður í Ribeira-hverfið enda er þar iðandi mannlíf báðum megin við brúna yfir Duero-ána. Sem gefur að skilja er verðlag þarna hærra enda allir að borga fyrir staðsetninguna. Við fengum okkur kaffi á Cafe do Cais við árbakkann (8 evrur) en hann bauð upp á fínan hádegisverðarseðil.

Mér finnst ástæða til að benda á staðinn Esquires Coffee við R. de 31 de Janeiro, sem er hliðargata útfrá Rua de Santa Catarina. Þar er yfirleitt fullt í hádeginu en við komum aðeins seinna og fengum góðan hádegismat fyrir tvo á 20 evrur. Þetta eru léttir réttir, góðir og saðsamir.majestic

Við stoppuðum síðast í kaffi á Majestic Cafe á Rua de Santa Catarina en það er án efa glæsilegasta kaffihús Porto. Prúðbúinn dyravörður vísar fólki til sætis og þjónar eru stimamjúkir og einkennisklæddir. Þar eru oftast biðraðir og þar sem við höfðum farið áður létum við þar við sitja. Pestana a Brasileira er flottur kaffistaður við R. de Sá da Bandeira þó hann jafnist ekki á við Majestic Cafe.

Á öllum stöðum er boðið upp á frítt Wi-Fi. Þjórfé er ekki nauðsynlegt en auðvitað vel þegið. Á einum stað var þjónustugjald á reikningnum en boðið að taka það út.