OECD segir nauðsynlegt að hækka vexti á Íslandi


mbl.is

Í yfirlit Efnahags- og samvinnustofnunar Evrópu, OECD, um efnahagsmál á Íslandi, sem birt var í dag, segir að íslensk stjórnvöld verði að bregðast við aukinni verðbólgu hér á landi með því að hækka vexti til að koma jafnvægi á verðlag, jafnvel þótt það kunni að leiða til þess að gengi krónunnar hækki. Þá segir OECD að þótt ríkissjóður sé rekinn með afgangi muni aukið aðhald í ríkisrekstri einnig hjálpa upp á sakirnar.

Um er að ræða frumskýrslu stofnunarinnar um efnahagsmál sem birt er reglulega á hálfs árs fresti. Í kaflanum um Ísland segir að enn sé um að ræða þenslu í efnahagsmálum. Hagvöxtur verði líklega um 4% á yfirstandandi ári eftir að hafa verið um 5% að jafnaði undanfarin fimm ár. Þá hafi verðbólga vaxið - í nærri 6% undanfarið. Ólíklegt virðist að úr verðbólgunni dragi af sjálfu sér. Atvinnuleysi sé lítið og viðskiptahalli sé áfram mikill. Í umfjöllun OECD segir að Seðlabankinn hafi hækkað stýrivexti, bæði á síðasta ári og þessu en ekki haft við verðbólgunni. Þannig hafi opinberir repo-vextir í mars verðið 10,1% eða aðeins 2,2% hærri en á sama tíma árið áður en verðbólgan hafi á tímabilinu aukist um 3,9%. Þá hafi útlán banka aukist verulega í kjölfar erlendrar lántöku í bankakerfinu. Er því spáð að stýrivextir Seðlabankans verði orðnir 12% á næsta ári.Hörð lending?
OECD telur líklegt að heldur dragi úr aukningu umsvifa í efnahagslífinu á þessu ári og næsta. Dregið hafi úr kaupmáttaraukningu en hins vegar muni neytendur áfram njóta góðs af hækkandi húsnæðis- og hlutabréfaverði sem hafi aukið eignir manna umtalsvert. Þetta kunni að leiða til minni sparnaðar og því dragi minna en ella úr vexti útgjalda heimilanna. Fjárfesting í fasteignum muni væntanlega áfram verða mikil. Á móti kemur að ekki sé búist við að skip verði seld úr landi og því ætti fjárfesting í atvinnurekstri, einkum í sjávarútvegi, að aukast umtalsvert. Í heild býst OECD við að aukning vergrar landsframleiðslu verði undir 4%; raunar nefnir stofnunin töluna 3,7%. Stofnunin segir að hærri vextir, þar á meðal húsnæðisvextir, ættu að draga úr umsvifum og að hagvöxtur verði þá undir 2,7%. Hins vegar sé búist við að atvinnuleysi verði áfram lítið og það auki á verðbólguhættuna þrátt fyrir vaxtahækkanir. En með því að draga hækka raungengið og draga þannig úr samkeppnishæfni fyrirtækja verði enn erfiðara að draga úr viðskiptahallanum. Loks segir OECD að hætta sé orðin á því að því aðeins sé hægt að ná verðbólgu niður á svipað stig og í viðskiptalöndunum að verulega verði dregið úr framkvæmdum og umsvifum. Launahækkanir í yfirstandandi kjarasamningum séu umfram það sem þarf til að tryggja verðstöðugleika og líkur séu á launaskriði. Þá sé vöxtur útlána í bankakerfinu of mikill og það auki líkurnar á „harðri lendingu," ef vextir hækka.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK