22 milljarðar notaðir til að greiða niður innlendar skuldir

Áætlaður lánsfjárafgangur ársins 2000 er um 28 milljarðar króna. Af þessu fé verða 22 milljarðar króna notaðir til að greiða niður innlendar skuldir ríkissjóðs og Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins verða greiddir fimm milljarðar. Erlendar skuldir verða greiddar "eftir því sem svigrúm leyfir".

Þetta kom fram í fréttatilkynningu sem dreift var á fundi Geirs H. Haarde fjármálaráðherra með fulltrúum fjármálafyrirtækja í dag. Yfirstandandi ár verður fjórða árið í röð sem ríkissjóður er rekinn með tekjuafgangi, ef áætlanir standast. „Lækkun innlendra skulda um 22 milljarða króna skiptist þannig að á gjalddaga eru 14 milljarðar auk vaxta og er áformað að forinnleysa ríkisverðbréf fyrir 14 milljarða nettó. Á móti vega áform um 6 milljarða króna sölu ríkisvíxla umfram innlausn," segir í fréttatilkynningunni. Þar kemur einnig fram að ekki verði seld nein ný spariskírteini á árinu nema í áskrift og við skiptiinnlausn. Ríkisbréf að fjárhæð allt að þremur milljörðum króna verða boðin út mánaðarlega í skiptum fyrir þá flokka sem nú eru til forinnlausnar auk nýsölu. Fram kom á fundinum að Lánasýslu ríkisins hefði verið falið að bjóða út viðskiptavakt með þrjá flokka spariskírteina og einn flokk ríkisbréfa. Útboðið verður auglýst 31. maí og tilboð opnuð 5. júní. Hér á eftir fylgir fréttatilkynning fjármálaráðherra: „Fjármálaráðherra, Geir H. Haarde, átti í dag fund með fulltrúum fjármálafyrirtækja þar sem hann kynnti stöðu ríkissjóðs og áform um lántökur og afborganir á þessu ári. Einnig voru kynntar helstu aðgerðir í lánsfjármálum fram til áramóta. Verulegar breytingar hafa orðið á afkomu ríkissjóðs á undanförnum árum. Áætlað er að árið 2000 verði fjórða árið í röð þar sem ríkissjóður er rekinn með tekjuafgangi. Í ár er áætlað að lánsfjárafgangur ríkissjóðs muni nema 28 milljörðum króna. Ríkissjóður áformar í aðalatriðum að ráðstafa þessum lánsfjárafgangi með því að greiða niður innlendar skuldir um 22 milljarða og greiða fimm milljarða til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Erlendar skuldir verða greiddar niður eftir því sem svigrúm leyfir. Lækkun innlendra skulda um 22 milljarða króna skiptist þannig að á gjalddaga eru 14 milljarðar auk vaxta og er áformað að forinnleysa ríkisverðbréf fyrir 14 milljarða nettó. Á móti vega áform um 6 milljarða króna sölu ríkisvíxla umfram innlausn. Ekki er fyrirhugað að selja ný spariskírteini á árinu nema í áskrift og við skiptiinnlausn. Gefin verða út ríkisbréf að fjárhæð allt að þrír milljarðar króna sem boðin verða í mánaðarlegum útboðum í skiptum fyrir þá flokka sem nú eru til forinnlausnar auk nýsölu. Greiðsluafkoma rekstrar var á fyrsta ársþriðjungi um fimm milljörðum króna betri en áætlanir gerðu ráð fyrir en óvíst er að hvaða marki það skilar sér í bættri afkomu á árinu. Þá nam forinnlausn ríkisverðbréfa sex milljörðum króna. Í febrúar gaf ríkissjóður út skuldabréf að fjárhæð 200 milljónir evra til sjö ára og er það í fyrsta sinn sem ríkissjóður gefur út skuldabréf í evrum á alþjóðlegum gjaldeyrismarkaði. Andvirði útgáfunnar var notað til greiðslu erlendra lána. Á öðrum ársþriðjungi er gert ráð fyrir jöfnuði á lánsfjármálum í heild þó sveiflur komi fram á einstökum mánuðum. Enginn ríkisverðbréfaflokkur er á gjalddaga á þessu tímabili en áformað að forinnleysa tvo milljarða króna nettó í útboði sem haldið verður í júní og einn milljarð króna nettó á mánuði í útboðum í júlí og ágúst. Þá er áætlað að selja sjö milljarða í ríkisvíxlum umfram innlausn. Á þriðja ársfjórðungi er ætlunin að forinnleysa fjóra milljarða króna nettó með mánaðarlegum uppboðum. Kaup á eftirmarkaði munu heyra til undantekninga og eingöngu beinast að smærri upphæðum. Fjármálaráðherra hefur falið Lánasýslu ríkisins að bjóða út viðskiptavakt með þrjá flokka spariskírteina og einn flokk ríkisbréfa. Gert er ráð fyrir að útboðið verði auglýst 31. maí 2000 og tilboð opnuð 5. júní. Gildistími samnings verður eitt ár eða til loka maí 2001. Unnið er að undirbúningi þess að koma á fót aðalmiðlarakerfi ríkisvíxla í samráði við markaðsaðila. Stefnt er að því að kerfið verði tekið upp á næstu mánuðum. Gerð hefur verið áætlun um birtingu upplýsinga frá fjármálaráðuneyti og Lánasýslu ríkisins og verður hægt að nálgast þessar upplýsingar á heimasíðu fjármálaráðuneytisins og Lánasýslunnar."
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK